Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, segir að verði Brexit ekki framfylgt myndi það þýða „stórslysalegt og ófyrirgefanleg svik gegn lýðræðinu í Bretlandi“, í pistli sem birtist í breska blaðinu Sunday Express í morgun.

Í pistlinum biðlar hún til þingmanna um að styðja Brexit samninginn sem kosið verður um á þriðjudaginn næstkomandi. Verði samningnum hafnað gæti það haft í för með sér að Bretland yfirgefi Evrópusambandið án samnings eða að Brexit gerist hreinlega alls ekki, fullyrti hún meðal annars. 

Í umfjöllun BBC um málið er sagt að helstu forsvarsmenn innan forsætisráðuneytisins óttist fyrirhugaðar áætlanir breskra þingmanna sem greint hefur verið frá í þarlendum fjölmiðlum en fullyrt er að þverpólitísk samstaða ríki meðal fjölda þingmanna um að þingið taki málin í sínar eigin hendur fari svo að samningi May verði hafnað.

Eru áætlanir uppi um að breyta reglum neðri deildar breska þingsins á þann veg að þingið geti tekið fram fyrir hendurnar á ríkisstjórninni með þeim hætti að það yrðu þingmenn, en ekki ráðherrar sem gætu tekið mikilvægar ákvarðanir sem tengjast Brexit og þannig komast framhjá Theresu May. 

Yrði það að veruleika hefur því verið velt upp meðal breskra fjölmiðla að þingmenn myndu fara fram á að Brexit yrði hreinlega frestað en Bretland á að ganga úr Evrópusambandinu þann 29. mars næstkomandi, óháð því hvort að samningum verði náð eða ekki. 

Fastlega er búist við því að Brexit samningi Theresu May verði hafnað í breska þinginu samkvæmt umfjöllun BBC en í pistli sínum undirstrikaði hún mikilvægi þess að breskir þingmenn virtu óskir meirihlutans í Bretlandi sem kosið hefði Brexit og talaði hún þá einnig til almennings.

„Þegar þið mættuð til að kjósa í þjóðaratkvæðagreiðslunni, þá gerðuð þið það af því að þið vilduð að rödd ykkar heyrðist. Sum ykkar lögðuð traust ykkar á pólitíska ferla í fyrsta sinn í áratugi. Við getum ekki - og megum ekki - bregðast ykkur. Að gera slíkt yrði stórslysalegt og ófyrirgefanleg svik á trausti á lýðræðinu okkar.“

Fréttir bárust af því í gær að þingmenn stjórnarandstöðuflokkanna með Verkamannaflokkinn í broddi fylkingar undirbúi nú vantrauststillögu gegn ríkisstjórn May og ætla sér að bera hana fram á þriðjudag, verði Brexit samningnum hafnað eins og flestir virðast gera ráð fyrir.