Ungar athafnakonur standa fyrir sérstökum viðburði, Ofurkonan þú, í samstarfi við Hugrúnu geðfræðslufélag þann 20. október næstkomandi. Tilgangur viðburðarins er að skapa umræðu um óraunhæfar kröfur „ofurkonunnar“ og fer sérstök herferð af stað í hádeginu í dag.

Fjölmargar konur kannast eflaust við að taka á sig hugrænu byrðina á heimilinu (e. mental load). UAK bendir á í tilkynningu sinni að fjölmargar rannsóknir og reynsluheimar kvenna styðja að þær beri hitann og þungann af ólaunuðum störfum heimilisins og fjölskyldulífs.

Hugtakið Ofurkona á við um konu sem skapar sér frama á vinnumarkaðinum, stendur sig vel innan heimilisins, sem móðir, eiginkona, vinkona og er til fyrirmyndar á öllum sviðum lífsins.

Fólk er hvatt til að taka þátt með því að tísta eða birta myndir á Instagram eða sögur á Facebook um ofurkonu í ykkar lífi undir myllumerkinu #ofurkona. Tilgangur herferðarinnar er að endurskilgreina hugtakið ,,ofurkona” á jákvæðan hátt með því að minna á að ofurkonan þarf ekki að uppfylla kröfur samfélagsins.

Viðburðurinn fer fram þann 20. október kl. 17:30 og verður stafrænn.

Fyrirlesarar verða þær Erla Björnsdóttir, klínískur sálfræðingur með doktorspróf í líf og læknavísindum, Hafrún Kristjánsdóttir, íþróttasálfræðingur með doktorspróf í læknavísindum og deildarforseti íþróttafræðideildar HR, Inga Dagný Eydal, hjúkrunarfræðingur og fyrrverandi ofurkona og Sylvía Briem Friðjónsdóttir, verkefnastjóri þjálfunar á ungu fólki hjá Dale Carnegie og einn af þáttastjórnendum í Norminu.

Mynd: UAK