Bandaríski fjallaleiðsögumaðurinn Mike Reid, sem hefur búið á Íslandi í fjögur ár, setti nýverið heimsmet ásamt félaga sínum, Ísraelanum Yonatan Belik. Þeir keyrðu um öll 48 samfelldu fylki Bandaríkjanna á rafmagnsmótorfákum. Þetta er þriðja heimsmet Reids, sem býr á Höfn í Hornafirði, og hyggjast þeir félagar setja tvö til viðbótar á Íslandi á þessu ári.„Þetta var brjálæði. Þetta voru 15 þúsund kílómetrar,“ segir Reid. „Bandaríkin eru svo stór og svo mörg veðrakerfi. Í köldustu veðrunum vorum við orðnir dofnir á höndum og fótum. Ég datt af hjólinu. Fólk hótaði að skjóta okkur. Svona er Ameríka.“

Eitt sinn lentu þeir í stormi í Nýju-Mexíkó, óttuðust ofkælingu og neyddust til að biðja ókunnuga um húsaskjól. Þarna voru stórir hundar og varúðarskilti. „Ég hélt að við yrðum skotnir þegar Yonatan fór og bankaði upp á. En fólkið bauð okkur velkomið, fæddi okkur og hýsti,“ segir hann.Reid er upprunalega frá borginni Philadelphia en byssumenningin ytra hugnaðist honum ekki. „Ég valdi Ísland af því að ég fékk ódýran flugmiða,“ segir Reid og hlær. „En ástæðan fyrir því að ég ætla að vera hér út ævina er að Ísland er eins og ævintýraland. Byssuglæpir eru ekki til, heilbrigðisþjónustan er frábær, nánast ókeypis og menntakerfið sömuleiðis. Þetta er frábær staður til að búa á og stofna fjölskyldu.“

Reid starfar hjá Glacier Adventure, sem studdi ferðalag félaganna, og fer á Breiðamerkurjökul með ferðamenn til að fræða þá. „Eitt það besta við að búa hér er að Íslendingar skilja hvað er að gerast með hlýnun jarðar því að þeir sjá jöklana bráðna. Það eru engin átök í stjórnmálunum um þetta og útlendingar vilja heyra frá Íslendingum hvað sé að gerast, því þær upplýsingar eru áreiðanlegar,“ segir hann.

Uppeldið í bandarísku skólakerfi er ástæðan fyrir því að Reid ákvað að reyna sig við heimsmetin. Sífellt hafi krökkum verið sagt hvað þeir gætu ekki gert og hann vildi storka því. Fyrsta heimsmetið setti hann með þáverandi unnustu sinni, Sigríði Ýri Unnarsdóttur, en þau keyrðu rafsmáhjól 2.500 kílómetra. Annað setti hann með Belik og fleirum, en þeir óku 2.600 kílómetra á rafhlaupahjóli á 24 tímum.

Í maí hyggjast Reid og Belik slá heimsmet hér á landi, það er í að keyra rafmagnseinhjól samfara því að djöggla þremur hlutum, í samstarfi við sirkusmanninn Egil Kaktuz Þorkelsson Wild. Núverandi heimsmet er einn kílómetri. Mánuði síðar ætla þeir að slá annað heimsmet og fara hringveginn á slíku hjóli. „Við ætlum að taka upp sjónvarpsþátt og sýna náttúruna, íslenska glímu og margt fleira,“ segir Reid.