Það stefnir í methagnað sjávarútvegsfyrirtækja. Brim hagnaðist um 11,3 milljarða í fyrra og Síldarvinnslan um svipaða fjárhæð. Hagnaður Síldarvinnslunnar fyrstu þrjá mánuði þessa árs nam á fjórða milljarð króna.

Samherji, Kaupfélag Skagfirðinga (KS) og önnur risafyrirtæki í íslenskum sjávarútvegi, hafa ekki skilað uppgjöri fyrir síðasta ár en mikils hagnaðar er vænst. Íslensk fiskiskip veiddu fisk fyrir 162,2 milljarða króna í fyrra samkvæmt tölum Hagstofu. Verðmæti afla jókst um 9 prósent milli ára, var 148,3 milljarðar 2020 samkvæmt úttekt Kjarnans. Munar mestu um uppgrip í síld og loðnu og eru horfurnar mjög góðar nú, því verð á prótíni og ekki síst fiski hefur hækkað mjög í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu.

Í lok árs 2020 var bókfært eigið fé íslensks sjávarútvegs 325 milljarðar króna. Aukning eigin fjár á sjö árum hjá sjávarútvegsfyrirtækjum er vel á annað hundrað milljarða.

Þingmenn stjórnarandstöðu hafa ítrekað bent á að veiðigjöld séu of lág. Svandís Svavarsdóttir matvæla­ráðherra sagði í Morgunblaðinu í gær að djúpstæð tilfinning væri meðal almennings um óréttlæti vegna samþjöppunar veiðiheimilda og að ágóðanum af sameiginlegri auðlind væri ekki skipt á réttlátan hátt. Árið 2020 greiddi sjávarútvegurinn tæpa 4,8 milljarða í veiðigjald en á sama tíma hefur íslenska ríkið þurft að taka á sig söguleg áföll vegna veirufaraldursins.

Logi Einarsson, formaður Samfylkingar, segir að arðurinn fyrir aðgengi að takmörkuðum auðlindum í eigu þjóðarinnar verði í auknum mæli að skila sér til þjóðarinnar.

„Við höfum horft upp á gríðarlega auðsöfnun á mjög fáar hendur sem hefur auk þess leitt til þess að örfáir einstaklingar halda ekki einungis á þorra fiskveiðiheimilda, heldur hafa í skjóli þessa sama auðs sölsað undir sig eignir mjög víða í samfélaginu í óskyldum greinum,“ segir Logi.

Hann nefnir fjölmiðlarekstur, fasteignastarfsemi, flutninga, dagvörumarkað, orkuvinnslu, jafnvel tryggingar og bankastarfsemi.

„Þetta skapar mjög óheilbrigt ástand. Og nú þegar allur þorri almennings sér fram á versnandi afkomu og ýmis heilbrigðis- og velferðarþjónusta er undirfjármögnuð, ættu handhafar kvótans sannarlega að greiða meira til samneyslunnar, þeir eru vel aflögufærir, svo ekki sé meira sagt,“ segir Logi.

Samanlagt eiga fjórar blokkir um 60 prósent af öllum úthlutuðum kvóta. Þessar blokkir eru Samherji, Brim, KS og Ísfélagið. Heiðrún Lind Marteinsdóttir hjá Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) bendir á, vegna orða Svandísar, að samþjöppun veiðiheimilda sé þó takmörkuð með lögum.

„Þrátt fyrir orð ráðherra nú leyfi ég mér að efast um að almenningur vilji hverfa frá þeim þáttum sem hafa verið grundvöllur að sjálfbærni og verðmætasköpun í atvinnugreininni,“ segir hún.

Heiðrún bendir á að auðlindagjaldið sé afkomutengt, hækki þegar vel gengur og lækki þegar lakar árar. Þá sé rétt að hafa í huga að þótt ágætlega gangi nú sé ekki langt frá tveimur loðnulausum árum og kvóti í þorski hafi verið skorinn niður um 50 þúsund tonn á tveimur fiskveiðiárum.

„Hin samfélagslegu verðmæti verða ekki aukin með auknum álögum, þau verða fyrst og síðast aukin með því að treysta samkeppnishæfni og með aukinni verðmætasköpun," segir Heiðrún.

Heiðrún Lind Marteinsdóttir hjá Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi
Logi Már Einarsson formaður Samfylkingarinnar