Foreldrar Hrefnu Lindar Ásgeirsdóttur, hugbúnaðarsérfræðings, eru að hennar sögn nú á götunni þar sem Félag Eldri Borgara (FEB) neitar að afhenda þeim lyklana að íbúð sem þau höfðu keypt í Árskógum. Málið er að sögn Hrefnu hið undarlegasta þar sem litlar upplýsingar fást um málið sem einkennist af pukri og leyndarhyggju.

„Daginn eftir loka afhendingardag samkvæmt þinglýstum kaupsamningi boðaði félagið þau á fund þar sem þeim voru gefnir þeir afarkostir að ellegar skrifa undir viðauka við kaupsamninginn þess efnis að íbúðarverðið hafi hækkað um rúmar sex milljónir eða falla frá kaupunum,“ segir Hrefna. Vinnubrögðin hafa sætt mikilli gagnrýni en alls hafa 13 manns samþykkt að greiða hærra kaupverð.

Ræddu fyrst við þá verst stöddu

Hrefna segir foreldra sína hafa gengið grunlausa á fundinn þar sem sérstök áhersla hafi verið hjá FEB að ræða við örvæntingarfyllsta fólkið fyrst. „Þeir sögðu að þeir ætluðu að byrja á að tala við þá sem eru verst settir sem hefur þá líklega verið fólk eins og mamma og pabbi sem er búið að selja ofan af sér.“ Foreldrar Hrefnu afhentu íbúð sína daginn eftir að þau áttu að fá nýju íbúðina í Árskógum afhenta en þau búa núna heima hjá Hrefnu og fjölskyldu hennar .

Hrefna segir það hafa verið heppilegt að hún og eiginmaður hennar höfðu mætt með foreldrum hennar á fundinn þar sem þau gátu stöðvað undirskrift samningsins. „Þetta var kynnt þannig að þeim fannst í raun ekki vera neitt annað í stöðunni en að skrifa undir pappírinn.“

Aðspurð segir Hrefna það ekki koma á óvart að einhverjir hafi þegar skrifað undir samninginn. „Það er talað fyrst við fólk sem er hvað örvæntingarfyllst, sem er sennilega ástæðan fyrir því að fólk hefur skrifað undir án þess að hugsa um það neitt frekar.“ Henni grunar að fjöldinn útskýrist einnig af því að fólk sem sitji í stjórn eða framkvæmdarstjórn FEB fengu úthlutað íbúðum og hafi þar af leiðandi ekki óskað eftir frekari gögnum um eigin gjörning.

Búið að stilla þeim upp við vegg

Foreldrum Hrefnu hefur dreymt um að flytja í nýju íbúðirnar frá því að framkvæmdir við húsið hófust. Móðir Hrefnu hefur glímt við áratuga veikindi og sjúkdóma og hafði hlakkað til að koma sér fyrir á nýja staðnum. „Þau eru iðnmenntað fólk sem hefur alltaf þurft að vinna fyrir sínu og hafa búið í íbúð í blokkinni sem þau byggðu í Breiðholti í 40 ár,“ segir Hrefna og bætir við að það sé skelfilegt að íbúðarkaupin hafi endað svona.

Hún segir foreldra sína vera miður sín vegna stöðu mála og hún furðar sig á verklagi FEB. „Það er búið að stilla þeim þannig upp við vegg að ef þau ætla að berjast fyrir rétti sínum þá eru þau að knésetja félag eldri borgara, sem þau vilja að sjálfsögðu ekki.“ Hrefna segir það vera til háborinnar skammar að félag berjist gegn eigin meðlimum.

Íbúðirnar eru nú tilbúnar til afhendingar en upprunaleg afhending átti að vera fyrsta júní.

Þöggun og leyndarhyggja

„Auðvitað þá skilja allir að það þarf að brúa þetta 400 milljón króna bil en fyrst þarf að gefa upp öll gögn í málinu.“ Hrefna segir ferli málsins hafa einkennst af þöggun og leyndarhyggju. „Á téðum fundi fyrsta ágúst var lögð ofuráherslu á að innihald fundarins yrði ekki rætt við neinn, hvorki fjölmiðla né aðra kaupendur.“

Hrefna furðar sig á að leyna íbúðakaupendum sannleika málsins og grunar að hægt hefði verið að upplýsa fólk mun fyrr um stöðu mála. „Ég sagði við Gísla Jafetsson þegar ég yfirgaf fundinn að þetta væri hættulegur leikur sem þeir væru að leika þarna,“ segir Hrefna og tekur fram að það jaðri við siðleysi að nota lykla af íbúðunum sem gulrót svo að fólk skrifi undir samninginn. Í kjölfar ummæla Hrefnu voru kaupendur, sem ekki höfðu enn sótt fund FBE, upplýstir um efni fundarins í tölvupósti og gátu þannig undirbúið sig fyrir næsta dag.

Tilbúin að skrifa undir samninginn

Hrefna segir foreldra sína vera tilbúna að skrifa undir samning um leið og samningsaðilar komi málinu á borð og leggi fram gögn sem útskýra stöðu mála. „Við viljum komast að einhverju samkomulagi og vera upplýst um hver á að bera skaðann af þessu rugli.“

„Hvaðan kemur þessi tala og hvað breyttist á þessum fjórum mánuðum frá því skrifað var undir bindandi kaupsamning þar til afhenda átti lyklanna?“ spyr Hrefna sjálfa sig en hún segist engin svör hafa fengið frá FEB. „Hver er að krefjast þessara 400 milljóna og hvers vegna gat engin séð þetta fyrir?“

Hrefna vonast til að hægt verði að leysa málið sem fyrst og svara þeim fjölda spurninga sem ásækja nú kaupendur. „Foreldrar mínir eru í öngum sínum yfir því að vera svona í lausu lofti og hafa áhyggjur af þessu á hverjum einasta degi.“ Hún hefur ekki fengið neinar frekari fregnir af málinu frá FEB frá því í síðustu viku.