Al­var­legar lang­varandi af­leiðingar, jafnt líkam­legar sem and­legar, verða hjá fólki sem lendir í ein­elti á vinnu­stað og hættir störfum. Þetta sýnir fyrsta rann­sóknin sem gerð hefur verið hér á landi um lang­tíma­af­leiðingar fyrir þol­endur ein­eltis á vinnu­stað.

Sig­rún Eyjólfs­dóttir gerði rann­sóknina, sem fjallað er um í meistara­rit­gerð hennar í mann­auðs­stjórnun við Há­skóla Ís­lands. Hún byggir á við­tölum við sjö ein­stak­linga, sem allir gegndu á­byrgðar­stöðum, og ber heitið Ein­elti á vinnu­stað. Dauðans al­vara.

Það sem kom Sig­rúnu helst á ó­vart er að ein­elti brýtur oft fólk niður löngu eftir starfs­lok.

„Fólk er sterkt. Það heldur á­fram en svo kemur sjokkið, oft miklu seinna,“ segir Sig­rún.

Allir við­mælendurnir í rann­sókninni upp­lifðu marg­vís­legt tjón á líkam­legri og and­legri líðan, skerta virðingu, mann­orðs­hnekki, verri fjár­hag og skort á at­vinnu­tæki­færum. Sumir þurftu á geð­deildum að halda auk lyfja og sál­fræði­þjónustu. At­hygli vekur að enginn við­mælendanna hafði fyrir ein­eltið átt sögu um kvíða eða þung­lyndi.

Dæmi um líkam­leg ein­kenni voru maga­ó­not, upp­köst, svita­köst, mikil þreyta og doði. Með tímanum jukust ein­kennin, leiddu oft til þyngdar­aukningar og jafn­vel sykur­sýki II og hjarta­ó­reglu.

„Upp­safnaðar af­leiðingar geta leitt til ör­orku,“ segir Sig­rún.

Blettur á mann­orði í kjöl­far ein­eltis og starfs­loka, hamlaði mögu­leikum þol­enda til að afla lífs­bjargar. Einn nefndi að ís­lenskur vinnu­markaður væri svo lítill að allir þekktu alla. Fyrr­verandi yfir­menn eigi að­velt með að planta nei­kvæðum orð­rómi um þá sem ganga ó­sáttir frá borði. „Hún er klikkuð, geð­veik, rugluð – ekki ráða hana!“

„Rann­sóknin sýnir fram á að margir eru lagðir í ein­elti vegna öfund­sýki“

Allir við­mælendur í rann­sókninni voru í mjög góðum störfum, sér­fræði- og fram­kvæmda­stjóra­stöðum. Ein af niður­stöðum rann­sóknarinnar er að oft verða þeir verst úti sem búa yfir mestri hæfni.

„Rann­sóknin sýnir fram á að margir eru lagðir í ein­elti vegna öfund­sýki. Þetta eru oft sér­lega hæfir, bros­mildir, já­kvæðir og vin­sælir ein­staklingar í starfi,“ segir Sig­rún.

Spurð um lær­dóm og úr­ræði segir Sig­rún að stór­auka þurfi fræðslu til starfs­manna um ein­elti. „Ein­elti er margs konar úti­lokun. Það þarf að taka hart á út­skúfun og bak­tali, það þarf að vera utan­um­hald, það þarf að kenna fólki hvað ein­elti er.“

Sig­rún segir að sagan sýni að þótt fyrir­tæki séu með ein­eltis­á­ætlanir og verk­ferla sé stundum ekki unnið eftir á­ætlunum ef mál koma upp.

,„Það er ó­á­sættan­legt að full­frískt fólk þurfi að þola lang­varandi at­vinnu­leysi vegna flekkaðs mann­orðs og geti orðið ó­vinnu­fært vegna fram­komu yfir­manns eða sam­starfs­fé­laga.“

Sig­rún segir að ger­endur ein­eltis séu oft haldnir ein­hvers konar per­sónu­leika­röskun sem brjótist fram með al­var­legum af­leiðingum er kemur að mann­auðs­málum.

„Við­brögðin við ein­elti mega ekki vera þau að þolandi þurfi alltaf sjálfur að víkja af vinnu­stað. Það verður að trúa þolanda og ræða málin, svo hann fái úr­lausn sinna mála en sé ekki skorinn burt eins og hvert annað mein,“ segir Sig­rún. „Ég held að smæð at­vinnu­markaðarins sé stór­kost­legt vanda­mál í þessu sam­hengi,“ bætir Sig­rún við.