Agnieszka Ewa Ziólkowska, nýr formaður Eflingar, segir að meirihluti kjaramála sem koma á borð Eflingar séu mál erlendra félagsmanna. Það sé oftað svindlað á þeim þar sem þau þekki ekki rétt sinn.

Þetta segir Agnieszka í ítarlegu viðtali í sunnudagsblaði Morgunblaðsins.

Að sögn Agnieszku telji atvinnurekendur auðveldara að svindla á erlendu verkafólki en innlendu.

„Þó er ekki hægt að alhæfa um það því á síðasta vinnustað mínum var verið að svindla á Íslendingum; þau bara áttuðu sig ekki á því,“ segir hún.

Agnieszka segir í samtali við Morgunblaðið að það sé mjög algengt að atvinnurekendur svindli á sínu fólki. Þeir sem svindli, borgi of lág laun og hundsi lög um orlof og réttindi. Hún bætir við að þeir sem svindli á starfsfólki sínu séu mjög hugmyndaríkir þegar það kemur að því að svindla.

Agnieszka segir atvinnurekendur sem svindli skaði mjög þá atvinnurekendur sem eru heiðarlegir og fari eftir lögum. „Það er hagur allra að refsa fyrir þessi brot, bæði launafólksins og heiðarlegra atvinnurekenda – og auðvitað samfélagsins.“

Að sögn Agnieszku sé ótrúlegt hversu treglega það gangi að fá inn lagaheimildir til að leggja féviti á launaþjófa. Ef þjófnaðurinn væri annars eðlis myndi þetta aldrei viðgangast segir hún jafnframt í samtali sínu við Morgunblaðið.