Samkvæmt Veðurstofunni gengur í norðaustan og norðan 18-25 m/s í dag með slyddu eða snjókomu N- og A-lands, en rigningu við A-ströndina. Það verður hægara og úrkomuminna SV-lands.

Í hugleiðingum veðurfræðings kemur fram að kröpp og óvenjudjúp lægð skammt suður af landinu hreyfist allhratt norðaustur. Varað er við því að lægðin valdi norðan- og norðaustanstormi eða -roki og blindhríð fyrir norðan og austan og líklega einhverjum samgöngutruflunum og athygli er vakin á gulum og applesínugulum viðvörunum sem gilda í dag.

Veðrið snýst í norðvestan 20-28 m/s á austanverðu landinu upp úr hádegi, en annars verða hægari vestan- og norðvestanáttir suðvestantil á landinu og snjókoma eða él með köflum, en 18-25 m/s syðst fram á kvöld. Það gæti þó snjóað talsvert á höfuðborgarsvæðinu seinnipartinn og það gæti hægt á umferð. Það dregur síðan heldur úr vindi og úrkomu seint í kvöld og nótt.

Á morgun verður sunnan og suðvestankaldi, 8-15 m/s, og slydda eða snjókoma með köflum, en úrkomulaust að kalla norðaustantil. Hiti verður yfirleitt kringum frostmark að deginum.

Sjór gæti gengið á land

Sjór getur gengið á land og valdið tjóni því það er stórstreymt, mjög lágur loftþrýstingur og hvass vindur. Fólk er því hvatt til að tryggja báta, vörur og tæki við sjávarsíðuna.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á laugardag: Sunnan og suðvestan 8-15 m/s og snjókoma eða slydda með köflum, en lengst af bjart og þurrt NA-til. Hiti kringum frostmark. 

Á sunnudag: Norðlæg átt, 8-13 m/s og dálítil snjókoma eða él, bjartviðri fyrir sunnan og hiti kringum frostmark. Lægir um kvöldið, léttir til og kólnar. 

Á mánudag: Gengur í hvassa suðlæg átt með hlýindum og rigningu, en lengst af þurrviðri NA-lands. 

Á þriðjudag: Hvöss suðvestanátt og kólnar aftur með éljum, en léttir til fyrir austan. 

Á miðvikudag: Útlit fyrir hvassa suðvestanátt með hlýindum og talsverðri vætu, en þurrt að kalla eystra. 

Á fimmtudag: Líklega áfram suvðestanátt með éljum, en slyddu eða rigningu SA-til.

Færð og ástand vega

Suðvesturland: Greiðfært er á Reykjanesbraut og á Höfðuðborgarsvæðinu en annars er víðast hálka eða snjóþekja á vegum og skafrenningur á fjallvegum. 

Vesturland: Víða snjóþekja eða hálka á vegum og skafrenningur og él. 

Vestfirðir: Hálka, hálkublettir eða snjóþekja á vegum og skafrenningur á fjallvegum. Ófært er norður í Árneshrepp. 

Norðurland: Hálka eða hálkublettir á flestum leiðum. Öxnadalsheiði er þungfær og þar er mjög slæmt ferðaveður. Víða er éljagangur og snjókoma er í Eyjafirði. 

Norðausturland: Þar er snjóþekja og snjókoma og víða mjög blint. 

Möðrudalsöræfi og Hófaskarð eru lokuð vegna stórhríðar.

Austurland: Snjóþekja á flestum leiðum og él eða snjókoma á fjörðunum. 

Suðurland: Snjóþekja á vegum og víða blint vegna snjókomu og skafrennings.