Í dag gengur austan rok eða ofsaveður (23-30 m/s) yfir landið, en það verður fárviðri (yfir 32 m/s) í vindstrengjum á suðurhelmingi landsins. Víða verður slydda eða snjókoma og úrkoman verður mest sunnan- og austanlands.

Líkur á eldingum á Suðausturlandi

Í hugleiðingum veðurfræðings kemur fram að rauðar eða appelsínugular viðvaranir séu í gildi í öllum landshlutum. Fjöldi eldinga hafa mælst handan skilanna og á Suðausturlandi eru líkur á að það verði vart við eldingar þegar að skilin ganga yfir.

Lætin búin um miðnætti

Illviðrið gengur svo niður eftir hádegi og seinnipartinn snýst í sunnan hvassviðri sunnantil á landinu með rigningu á láglendi og 1 til 5 stiga hita, en þá verður áfram rok og ofankoma norðanlands. Í kvöld lægir talsvert og þá dregur líka úr úrkomu og á miðnætti rennur síðasta gula viðvörunin út.

Von á viðvörunum á morgun líka

Á morgun nálgast svo næsta lægð, sem er enn dýpri en lægð dagsins í dag en henni mun samt ekki fylgja sami vindstyrkur. Gert er ráð fyrir að gefa út viðvaranir vegna hennar síðdegis í dag, þegar óveður dagsins byrjar að ganga niður.

Á morgun verða austan og norðaustan 13-20 m/s, en það verða 20-25 m/s um tíma syðst á landinu. Það verður rigning eða slydda um landið sunnan- og austanvert en þurrt norðan- og vestanlands framan af degi, en það verður reyndar dálítil úrkoma þar seinnipartinn. Hiti verður 1 til 6 stig.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á sunnudag:

Austlæg átt, 3-10 m/s, og skýjað austanlands og dálítil él með suðurströndinni, en léttskýjað á vestanverðu landinu. Vaxandi norðaustanátt síðdegis, 10-18 m/s, um kvöldið með snjókomu norðantil. Frost 0 til 6 stig.

Á mánudag:

Norðanátt og él á Norður- og Austurlandi, en léttskýjað sunnantil. Frost 1 til 7 stig.

Á þriðjudag:

Fremur hæg suðlæg átt með éljum sunnan- og vestanlands, en léttir til um landið norðan- og austanvert. Frost 0 til 9 stig, kaldast norðanlands.

Á miðvikudag:

Vaxandi austlæg átt með snjókomu eða slyddu sunnanlands, en þurrt og kalt norðantil á landinu.

Á fimmtudag:

Austlæg átt með rigningu, slyddu eða snjókomu. Vestlægari um kvöldið og úrkomulítið. Hiti kringum frostmark.

Færð og ástand vega

Flestar aðalleiðir á landinu eru lokaðar og er fólk beðið um að vera ekki á ferðinni. Mikið erum lokanir um allt land.