Appelsínugul viðvörun er í gildi á öllu landinu á morgun vegna óveðurslægðarinnar sem nálgast landið. Í dag verður hægt vaxandi austanátt og í nótt heldur áfram að hvessa. Í fyrramálið má víða búast við gríðarlegum vindi, sérstaklega á suðurhelmingi landsins, og víða verður ofankoma. Það verður mikill vindur og úrkoma yfir daginn en annað kvöld skánar veðrið verulega.

Í dag er spáð hægt vaxandi austanátt og að það verði skýjað með köflum en að í kvöld verði vindur kominn í 10-23 m/s, hvassast syðst á landinu og þar verði snjókoma. Frost verður 1 til 7 stig. Vindur verður hægari og það verður kaldara norðaustanlands.

Í hugleiðingum veðurfræðings kemur fram að nótt hvessir meira og snemma í fyrramálið má víða búast við austan roki eða ofsaveðri, en fárviðri í vindstrengjum á suðurhelmingi landsins. Víða verður slydda eða snjókoma, mesta úrkoman verður sunnan- og austanlands.

Það snýst svo í sunnan hvassviðri sunnantil á landinu seinnipartinn á morgun með rigningu á láglendi og 1 til 5 stiga hita, en þá verður áfram rok og ofankoma um landið norðanvert með hita nálægt frostmarki.

Annað kvöld lægir talsvert á landinu og það dregur úr úrkomu. Undir miðnætti er útlit fyrir strekkingsvind um mestallt land sem væntanlega á eftir að virðast sem logn eftir það sem á undan er gengið.

Samspil tveggja veðrakerfa veldur óveðrinu

Óveðurslægðin sem nálgast landið dýpkar ört. Skammt norður af Scoresbysundi er 1014 mb hæð og spár gera ráð fyrir að hæðin standi kyrr þó lægðin nálgist. Í grófum dráttum má segja að það sé þrýstimunurinn milli þessara tveggja veðrakerfa sem veldur þeim aftakavindi sem í vændum er.

Mjög kalt í nótt

Það var kalt á landinu í nótt og mesta frostið mældist 23,5 stig við Mývatn og 22,9 stig á Grímsstöðum á Fjöllum.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á föstudag:

Austanátt, víða rok eða ofsaveður, en fárviðri í vindstrengjum á sunnanverðu landinu fyrir hádegi. Víða slydda eða snjókoma, úrkomumest sunnan- og austanlands. Hlýnandi veður, rigning á láglendi um landið sunnanvert og við austurströndina undir kvöld með hita 1 til 5 stig, en vægt frost fyrir norðan. Dregur talsvert úr vindi um kvöldið, en áfram stórhríð norðvestantil á landinu.

Á laugardag:

Gengur í austan og norðaustan hvassviðri eða storm með rigningu eða slyddu, en snjókomu inn til landsins, úrkomumest austanlands. Hiti 0 til 6 stig.

Á sunnudag:

Norðaustan 5-13 m/s og dálítil rigning eða slydda austantil á landinu, annars úrkomulítið. Norðan 10-18 m/s um kvöldið með snjókomu norðanlands. Kólnar heldur í veðri.

Á mánudag:

Norðanátt og él, en bjartviðri sunnan- og vestanlands. Víða vægt frost.

Á þriðjudag:

Fremur hæg suðlæg átt með éljum, en léttir til á Norður og Austurlandi. Frost 0 til 8 stig, kaldast norðaustantil.

Á miðvikudag:

Vaxandi suðaustanátt með snjókomu eða slyddu sunnan- og vestanlands, en þurrt og kalt fyrir norðan og austan.

Færð og ástand vega

Víðast hvar eðlileg vetrarfærð. Miðað við veðurspá lítur þokkalega út með ferðaveður í dag, alla vega framan af degi en spáð er vonskuveðri á morgun, föstudag.