Búnings­klefar í Sund­höll Reykja­víkur voru á dag­skrá Menningar-, í­þrótta- og tóm­stunda­ráðs fyrr í vikunni en til­efnið var erindi sem Dr. Vil­borg Auður Ís­leifs­dóttir sendi til land­læknis þar sem hún lýsti „ó­fremdar­á­standi“ í Sund­höllinni vegna ný­byggingar á búnings- og sturtu­klefum kvenna. Segir Vil­borg að nú­verandi á­stand sé heilsu­spillandi og að frá lýð­heilsu­sjónar­miði sé fyrir­komu­lagið ekki verjandi.

Vísar hún til þess að konur hafi fengið þær upp­lýsingar að þegar Sund­höllin var stækkuð að þær myndu aftur frá að­gang að sinni gömlu að­stöðu að fram­kvæmdum loknum. Í um­sögn Mann­réttinda-, ný­sköpunar- og lýð­ræðis­ráðs Reykja­víkur­borgar standi aftur á móti að gamli klefinn sé helst hugsaður sem við­bót þegar hann hefur verið gerður upp og sé ekki eyrna­merktur konum eða körlum.

Þá greinir hún frá því í erindi sínu til land­læknis að hún hafi skrifað yfirmanni Sundhallarinnar og borgar­stjórn bréf sem ekki hefur verið svarað. Hún hafi síðar rætt við Drífu Magnús­dóttur, sund­hallar­stjóra, sem kvaðst ekki vera með nein völd í málinu og sagði einungis að ekki hafi verið tekin á­kvörðun um málið. „Lof­orðið til kven­þjóðarinnar var sum sé inni­stæðu­laust orða­gjálfur,“ skrifar Vil­borg.

„Erfitt er fyrir eldri konur og skóla­stúlkur að iðka þessa líkams­rækt nema að sumar­lagi. Þær þurfa nefni­lega að ganga frá nýju búnings- og sturtu­klefunum 20 -25 metra til þess að komast inn í hrás­laga­legt stiga­hús, sem liggur að inni­lauginni ... Mörgum konum er mjög mis­boðið með þessu fyrir­komu­lagi, þykir sér sýnd lítils­virðing og eru því hættar að mæta á sinn gamla sund­stað.“

Drífa Magnús­dóttir, for­stöðu­maður Sund­hallarinnar, sagði í Morgun­blaðinu í dag að það hafi ekki verið mikið kvartað yfir stað­setningu kvenna­klefans heldur hafi aðal­lega tveir ein­staklingar látið í ljós ó­á­nægju sína. Má þar á­ætla að um sé að ræða Vil­borgu og Eddu Ólafs­dóttur, sem áttu fund með Drífu um málið.

Fagnar því að landlæknir sé kominn í málið

Kol­brún Baldurs­dóttir, borgar­full­trúi Flokks fólksins, hefur í­trekað beitt sér fyrir í málinu í borgar­stjórn en það hófst eftir að Edda Ólafs­dóttir, kona á tí­ræðis­aldri sem hafði sótt Sund­höllina í ára­tugi, birti grein um stöðuna. „Þetta gekk svo­lítið lengi, ég vildi klára alla mögu­leikana sem ég hafði því mér fannst þetta líka svo leiðin­legt mál,“ segir Kol­brún í sam­tali við Frétta­blaðið í dag.

„Ég bæði fór með þetta inn í skipu­lags­ráð til þess að spyrja um hönnunina og hvort að þetta hafi ekki verið mark­mið að þjónusta alla hópa, svo fór ég með þetta inn í mann­réttinda­ráð til þess að at­huga hvort þetta sam­ræmdist jafn­réttis­stefnu,“ segir Kol­brún en þá hafi hún fengið þau svör að svo væri. Mér finnst þetta bara veru­lega illa komið fram við þessar konur og ungar stelpur, og stelpur bara, því karlarnir fengu náttúru­lega sína klefa aftur þegar búið var að laga þá.“

Eftir að málið náði há­punkti í fyrra segir Kol­brún að það hafi farið af stað mikil um­ræða innan á­kveðinna hópa auk þess sem þjónustu­könnun Maskínu sýndi að það væri ó­á­nægja með klefana. Leiðir hennar til að koma málinu að í borgar­stjórn hafi þó tæmst þá en hún fagnar nú erindi Vil­borgar og vonar að málið fái ein­hverja hlustun nú þegar land­læknir er kominn í málið.

Kolbrún Baldursdóttir, borgarfulltrúi Flokks fólksins.

Nýtt fyrirkomulag með marga kosti

Í sam­tali við Frétta­blaðið segir Hjálmar Sveins­son, for­maður menningar-, í­þrótta- og tóm­stunda­ráðs, að það standi til að búið verði að gera upp gömlu klefana upp fyrir ára­mót og það takist jafnvel á næstu vikum. Ekki hafi enn verið tekin nein á­kvörðun um hvort klefarnir verði nýttir fyrir karla eða konur.

„Það getur verið að það verði notað bara þegar verður, eins og gerist stundum, alveg gríðar­leg að­sókn og þá myndi þurfa að nota gömlu klefana, en það á bara eftir að taka á­kvörðun um það hvernig þeir verði nýttir,“ segir Hjálmar að­spurður um hvort það sé mögu­leiki að konum verði gefinn kostur á að velja um gömlu eða nýju klefana.

Hjálmar segir þó nú­verandi fyrir­komu­lag eiga marga kosti. „Það er rétt að hafa það í huga í þessu máli öllu saman, að að­staða fyrir konur með hreyfi­hömlun var engin í gömlu klefunum, það þurfti að fara upp og niður brattan stiga. Þetta nýja fyrir­komu­lag hefur al­gjör­lega breytt því, þannig eiga fatlaðar konur mjög auð­velt með að komast í sund,“ segir Hjálmar.

Vill að konur fái að velja

Um er að ræða sömu rök og Mann­réttinda-, ný­sköpunar- og lýð­ræðis­ráð gaf þegar Flokkur fólksins beitti sér fyrir málinu í fyrra. Vil­borg tekur mark á því í bréfi sínu til land­læknis þar sem hún segir það lofs­vert að taka til­lit til minni­hluta­hópa en það megi ekki gerast á kostnað annarra.

„Til­lits­semi við minni­hluta­hópa er lofs­verð, en það er ó­tækt að gera það á kostnað kvenna og skóla­stúlkna, sem þessir klefar voru upp­runa­lega gerðir fyrir. Ein lausn er til á þessu máli og er hún sú að konur fái aftur sína gömlu klefa. Í nýju klefunum myndast þá svig­rúm til að sinna fötluðum og öðru fólki með sér­þarfir,“ segir Vil­borg.

Hjálmar vísar aftur á móti til þess að ef konur hefðu val um annan hvorn klefann þá þurfi að fjölga starfs­fólki. „Ef þeir eru notaðir dags­dag­lega þá þyrfti í rauninni að ráða fleira starfs­fólk til að vera á vöktum í þeim klefum, þannig þá værum við eigin­lega komin með svona tvö­falt kerfi. En klefarnir verða gerðir upp og síðan verður á­kveðið hvernig þeir verða nýttir,“ segir Hjálmar.