Staða fólks á leigumarkaði hefur versnað verulega frá árinu 2006 en rúmlega 20 prósent heimila eru á leigumarkaði, mest lágtekjufólk.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í Kjarafréttum Eflingar.

Stærri hluti ráðstöfunartekna fólks fer nú í leigu en að meðaltali tekur íbúðaleiga um 45 prósent af ráðstöfunartekjum og umtalsverður hluti leigjenda er með óhóflega háa greiðslubyrði.

Samkvæmt Kjarafréttum Eflingar er talað um að æskilegt sé að leiga fari ekki yfir 25 prósent af ráðstöfunartekjum fólks en nú þegar meðaltalið fyrir allan leigjendahópinn sé um 45 prósent og margir hópar fari upp í 70 prósent sé ófremdarástand á leigumarkaði.

Leigubyrðin sé orðin ósjálfbær fyrir rekstur heimila.

Ísland kemur illa út í samanburði

Ísland er með næst verstu stöðuna, ásamt Spáni, í alþjóðlegum samanburði samkvæmt tölum frá OECD um leigubyrði lágtekjufólks í aðildarríkjunum.

Gögn OECD benda á að staða leigjenda sé óvenju slæm á Íslandi og að það sé yfirleitt lágtekjufólk sem fyllir hóp leigjenda, til skemmri og lengri tíma.

Samkvæmt niðurstöðum Kjarafrétta Eflingar kemur fram að leiga hafi hækkað um 102 prósent á höfuðborgarsvæðinu á síðustu tíu árum, meira en í öðrum ríkjum Evrópu.

Ljóst sé að stuðningur við leigjendur sé ófullnægjandi og að húsaleigubætur þurfi að hækka umtalsvert og veita þurfi viðnám gegn taumlausum hækkunum leiguverðs.