Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra segir það lengi hafa legið fyrir að það sé orðið tímabært að endurnýja skipaflota Landhelgisgæslunnar en varðskipið Týr er nú komið endanlega í slipp og því er Gæslan aðeins með eitt skip til umráða, varðskipið Þór.
„Nú þegar Týr er kominn endanlega í slipp vegna alvarlegra viðgerða, fyrr en við bjuggumst við, að þá er þetta mjög mikill gleðidagur að geta ráðist í það að kaupa fáanlegt skip og fá það innan við nokkra mánuða,“ segir Áslaug í samtali við Fréttablaðið en ríkisstjórnin hefur samþykkt að kaupa nýlegt skip í stað Týs.
Kostnaður við nýtt skip einn til einn og hálfur milljarði
Líkt og Fréttablaðið greindi frá fyrr í vikunni kom upp alvarleg bilun í varðskipinu Tý en að sögn Áslaugar var reynt að fá varahluti í Tý úr varðskipinu Ægi. Sama bilun var þó þar auk þess sem það kom í ljós að skemmdirnar í Tý ógnuðu öryggi skipsins og áhafnar.
„Það er óforsvaranleg meðferð á opinberu fé að eyða mörg hundruð milljónum í 46 ára gamalt skip til að koma því til sjós, þegar það liggur auðvitað fyrir að Landhelgisgæslan þarf að hafa tvö fullbúin skip eins og Þór til sjós og til björgunar,“ segir Áslaug. „Þetta er hagstæðasti kosturinn á þessum tíma.“
Kostnaður við að gera við skipið var talinn nema meiru en sem svara verðmæti skipsins, eða um 100 milljónum króna. Kostnaður við að kaupa nýtt skip mun aftur á móti nema einum til einum hálfum milljarði að sögn Áslaugar. Þá hafi það verið skoðað að byggja nýtt skip en það hefði tekið of langan tíma.
„Afar skemmtilegt og öflugt að Freyja og Þór stæðu vörð um okkur“
Líkt og önnur skip Gæslunnar mun nýja skipið líklega sækja nafn sitt úr norrænni goðafræði. Áslaug hefur lagt til að skipið hljóti nafnið Freyja en Gæslan tekur þó endanlega ákvörðun. „Ég held að það væri afar skemmtilegt og öflugt að Freyja og Þór stæðu vörð um okkur hér.“
Að sögn Áslaugar eru vonir bundnar við að hægt verði að fara strax í að leita að besta kostinum og er þá verið að skoða skip í löndunum í kringum Ísland sem hafa verið notuð í styttri tíma. „Við bindum vonir við það að skipið verði komið hér til hafnar í haust eða fyrir næsta vetur,“ segir Áslaug.
Aðspurð um það hvort Þór muni einn geta sinnt þeim verkefnum sem geta komið upp þangað til nýtt skip kemur segir Áslaug að hún voni að svo sé. „Þetta er auðvitað öflugt skip sem hefur reynst vel og að mati Gæslunnar þá er þetta ásættanleg staða.“