Óformlegar viðræður á milli oddvita flokkanna í borgarstjórn Reykjavíkur eru enn í fullum gangi og munu halda áfram í dag.

Einar Þorsteinsson, oddviti Framsóknarflokksins, segist vera í góðu sambandi við aðra oddvita og að öll samtöl hingað til hafi verið hófstillt. „Við erum ekki komin á þann stað að hefja formlegar viðræður enn sem komið er. Þetta eru fyrst og fremst þreifingar en sjáum hvað dagurinn ber í skauti sér. Við getum sagt að þetta þokist allt í rétta átt."

Umleitanir flokkanna hafa ekki skilað skýrri niðurstöðu fram til þessa að hans mati enda segir Einar mikilvægt að vanda til verka.

Hann segist þó hafa verið mjög hreinskilinn í öllum samtölum varðandi ákveðnar meginlínur. Umboð Framsóknarflokksins í Reykjavík sé skýrt. „Niðurstaða kosninganna er að fólkið í Reykjavík vill breytingar. Það er það sem við lögðum upp með í kosningabaráttunni og uppskárum eftir því. Okkur er mikið í mun að svara kröfu kjósenda og gera það með skýrum hætti. Við viljum öll standa okkur vel fyrir okkar kjósendur og íbúa Reykjavíkur."

„Þess vegna er svo mikilvægt að við vöndum til verka og myndum meirihluta sem mun láta verkin tala. Þeir flokkar sem munu á endanum starfa saman í meirihluta verða að vera einhuga í þeirri nálgun. Það verður að ríkja traust. Bæði á milli flokka og einstakra borgarfulltrúa," segir Einar Þorsteinsson.