Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins, segir að milljarðar fari í súginn hjá Reykjavíkurborg vegna ofmönnunar. Starfsmannafjöldi Reykjavíkurborgar hafi aukist sem nemur 1.100 til 1.200 manns á kjörtímabilinu.

„Ég gagnrýni ekki lögbundna þjónustu eða grunnþjónustu í þessum efnum, en ég geri athugasemdir við skrifborðsstörf, ólögbundin verkefni og gæluverkefni,“ segir Vigdís.

Nú standi enn til að ráða inn á þjónustu-og nýsköpunarsvið 60 manns vegna stafrænnar umbreytingar. Starfsmannafjöldinn sé orðinn slíkur að borgin sé á fullu að leigja nýtt skrifstofuhúsnæði þar sem borgin belgist út. „Þetta er algjörlega óásættanlegt, því við erum bara rúmlega 130.000 íbúar.

Vigdís segir að heildarstarfsmannafjöldi borgarinnar sé milli 11.500 og 12.000, sem sé langt yfir hlutfallslegum fjölda í nágrannasveitarfélögum.

„Það er engin starfsmannahagkvæmni hér í höfuðborginni,“ segir Vigdís, sem leggur til 10 prósenta hagræðingarkröfu á stjórnsýsluna.

„Ég er ekki síst upptekin af þessu vegna þess að borgin er lánadrifin.“ Alltaf sé verið að taka ný lán sem komandi kynslóðir sitji uppi með þrátt fyrir að tekjur borgarinnar aukist, til dæmis af fasteignagjöldum.