Skjálftavirkni jókst aftur við Grímsey rétt fyrir miðnætti í gærkvöldi eftir að hafa minnkað lítillega í gærdag.
Stærsti skjálftinn í nótt mældist 4,2 að stærð og átti hann sér stað klukkan 01:05 eftir miðnætti. Upptök skjálftans voru um 10 kílómetra norðan við Grímsey.
Að sögn náttúruvársérfræðings hjá Veðurstofu Íslands bárust fáar tilkynningar um að skjálftinn hafi fundist í byggð. Þó nokkur skjálftavirkni fylgdi í kjölfarið og voru nokkrir yfir 3 að stærð.
Jarðskjálftavirknin við Grímsey er hluti af hrinu sem hófst 8. September síðastliðinn, en alls hafa um 6.000 skjálftar mælst síðan hrinan hófst. Stærstur þeirra varð aðfaranótt 8. september og mældist hann 4,9 að stærð.
Almannavarnir lýstu yfir óvissustigi á föstudag vegna hrinunnar úti fyrir Norðurlandi. Það þýðir að aukið eftirlit er haft með atburðarás sem á síðari stigum gæti leitt til þess að heilsu og öryggi fólks, umhverfis eða byggðar verði ógnað.