Lögreglan á Vesturlandi stöðvaði í lok febrúar umfangsmikla kannabisræktun í Borgarfirði í samvinnu við lögregluna á höfuðborgarsvæðinu. Greint var fyrst frá þessu í Skessuhorni.

Tveir voru handteknir í aðgerðum lögreglu og hafa báðir neitað sök. Rúmlega hundrað kannabisplöntur fundust á staðnum.

„Þetta voru tvær stærðir af plöntum sem við fundum í byggingunni, af þeim voru 83 plöntur sem voru 18 cm á hæð og 22 plöntur í allt að 90 cm hæð,“ segir Ásmundur Kristinn Ásmundsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá Lögreglunni á Vesturlandi, í samtali við Fréttablaðið.

Hann segir bygginguna hafa verið sérútbúna fyrir ræktunina. Ljóst er að aðilarnir sem stóðu að ræktuninni hafi ekkert sparað við útbúa ræktunarstöðina en auk plantnanna fannst ljósabúnaðar, sem lögreglan segir mjög öflugan og vandaðan.

„Þetta var búið að taka niður milliveggi gera húsnæðið þannig að hægt var að rækta í því. Verðmætin liggja greinilega í þessu ljósakerfi,“ segir Ásmundur og bætir við: „Þetta var vandaður og dýr búnaður sem var notaður við framleiðsluna.“ Dómari á enn eftir að taka ákvörðun um hvort búnaðurinn verði gerður upptækur.

Eins fundust loftriffill, tveir ólöglegir hnífar og haglaskot á staðnum en engin haglabyssa. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur tekið við plöntunum og vinnur áfram málið ásamt lögreglunni á Vesturlandi.