Mikil áhersla er lögð á góð samskipti við Bandaríkin í utanríkisstefnu Íslands. Þótt hvorki sé minnst á NATO né Bandaríkin í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar segir þar að þjóðaröryggisstefnan sem samþykkt hefur verið á Alþingi verði höfð að leiðarljósi fyrir öryggismál þjóðarinnar. Í henni segir meðal annars að aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu verði lykilstoð í vörnum Íslands og að varnarsamningur Íslands og Bandaríkjanna frá 1951 tryggi áfram varnir Íslands.

Varnarmál eru flókið viðfangsefni í stjórnarsamstarfi sem bæði Sjálfstæðisflokkurinn og Vinstri græn eiga aðild að. Sjálfstæðisflokkurinn hefur ávallt stutt öflugt samband við Bandaríkin en Vinstri græn hafa frá stofnun verið andvíg aðild Íslands að Atlandshafsbandalaginu og beitt sér gegn hverskyns viðveru bandaríska hersins á Íslandi.

Kolbeinn Óttarsson Proppe, þingmaður Vinstri grænna, tók þátt í mótmælum herðnaðarandstæðinga gegn heræfingu á Íslandi í fyrra.
Fréttablaðið/Eyþór

Þá fer stefna Bandaríkjastjórnar í loftslagsmálum alls ekki saman við áherslur Vinstri grænna og þá stefnu sem mörkuð hefur verið fyrir íslensk stjórnvöld í málaflokknum.

En það eru ekki aðeins þessi ólíku viðhorf innan ríkisstjórnarinnar sem kunna að orka tvímælis í þegar kemur að aukinni áherslu á samskipti við Bandaríkin. Heldur vekur stefna forseta Bandaríkjanna í utanríkismálum upp stöðugar spurningar um hvort það þjóni hagsmunum fullvalda ríkja sem kenna sig við lýðræði, mannréttindi og friðsamleg samskipti, að eiga í samskiptum við ríkið sem hann stýrir.

Kallaði eftir upplýsingum um samskipti ríkjanna

Í síðustu viku óskaði Logi Már Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, eftir slíku yfirliti. Í beiðni sinni vísaði Logi til vaxandi samskipta Íslands og Bandaríkjanna, utanríkisstefnu Donalds Trump, forseta Bandaríkjanna, sem hefur verið umdeild svo vægt sé til orða tekið, og samskipta stjórnar hans við erlenda þjóðarleiðtoga sem hafa orðið tilefni ítrekaðra rannsókna bæði saksóknara vestra og Bandaríkjaþings.

Af dagbók utanríkisráðherra sem aðgengileg er á vef stjórnarráðsins má sjá að Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra er iðinn við að efla samband ríkjanna tveggja. Hann hefur átt töluverð samskipti við nokkra ráðherra og aðstoðarráðherra í ríkisstjórn Donalds Trump en einnig fjölmarga embættismenn og þingmenn. Varnarmál, viðskipti og norðurslóðamál eru gjarnan helstu umræðuefni fundana.

Náið með Guðlaugi og Pompeo

Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, kom í heimsókn nú á haustdögum en Guðlaugur hefur einnig átt fundi með Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, bæði í Reykjavík og Washington á fyrri hluta þessa árs. Fundir þeirra fóru fram um svipað leyti og útboð á stórframkvæmdum á öryggissvæði Keflavíkurflugvallar fór fram af hálfu Bandaríkjahers.

Guðlaugur átti einnig töluverð samskipti við bandaríska embættismenn í aðdraganda þess að Ísland tók við formennsku í Norðurskautsráðinu í maí á þessu ári. Það vakti athygli að Pompeo neitaði að skrifa undir sameiginlega yfirlýsingu þjóðarleiðtoga í ráðinu við það tækifæri, eins og hefð er fyrir. Þar mun hafa verið klausa um loftslagsmál sem Pompeo gat ekki fellt sig við.

Fyrirhuguð kaup á Grænlandi

Guðlaugur átti enn eitt samtalið við Mike Pompeo 22. ágúst síðastliðinn í aðdraganda heimsóknar Mikes Pence varaforseta til Íslands. Símtalið átti sér stað sama dag og Donald Trump aflýsti ferð sinni til Danmerkur vegna vonbrigða með afstöðu Dana og Grænlendinga til sölu á Grænlandi. Athygli vekur að daginn áður, 21. ágúst, var Guðlaugur einmitt staddur á Grænlandi í vinnuheimsókn. Ekki liggur fyrir hvort Guðlaugur ræddi fyrirhuguð kaup Trumps á Grænlandi í heimsókn sinni þar, né heldur hvort heimsókn Guðlaugs til Grænlands var rædd í samtali hans við Pompeo daginn eftir.

Í Grænlandsferðinni ræddu Guðlaugur og Ane Lone Bagger, utanríkisráðherra í Landstjórn Grænlands, um tvíhliða samskipti þjóðanna, m.a. viðskipti og verslun, þ.m.t. aukin tækifæri í tengslum við flugsamgöngur og uppbyggingu ferðaþjónustu, sjóflutninga, aukið samstarf á sviði menntamála, menningar og lista, málefni norðurslóða og norrænt samstarf.

Fundir með Fionu Hill

Meðal annarra ráðherra Bandaríkjastjórnar sem Guðlaugur hefur fundað með eru orkumálaráðherrann Rick Perry, sem sótti Hringborð norðurslóða í Hörpu í síðustu viku og James Mattis, þáverandi varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, en þeir funduðu í Pentagon í fyrra.

Í sömu ferð til Washington hitti Guðlaugur formann utanríkismálanefndar neðri deildar bandaríska þingsins, Ed Royce og einnig Dr. Fionu Hill fyrrverandi ráðgjafa Bandaríkjastjórnar í málefnum Rússlands og Evrópu. Fiona Hill átti sæti í þjóðaröryggisráði Bandaríkjanna þar til hún sagði starfi sínu lausu í sumar. Hennar er einnig getið í dagskrá þáverandi sendiherra Íslands í Washington, sama dag og Guðlaugur fundaði með Mike Pompeo í janúar á þessu ári. Nafn Fionu hefur verið áberandi í fjölmiðlum í vikunni en hún sat fyrir svörum á fundi þingnefndar á Bandaríkjaþingi í gær, vegna rannsóknar þingsins á embættisfærslum forsetans.

Fiona Hill mætti til að bera vitni fyrir þingnefnd í Washington í gær. Fundur hennar með nefndinni stóð í tíu tíma.
Getty

Fundur Hill hjá þingnefndinni tók um tíu klukkustundir og bandaríska daglaðið New York Times greinir frá því að hún hafi, að beiðni Johns Bolton þáverandi þjóðaröryggisráðgjafa Bandaríkjanna, greint lögfræðingi þjóðaröryggisnefndarinnar frá tilraunum embættismanna og lögfræðings forsetans, Rudy Giuliani til að beita forseta Úkraínu ólögmætum þrýstingi í þágu pólitískra hagsmuna forsetans.

Hill sagði starfi sínu lausu nú í sumar og yfirgaf Hvíta húsið örfáum dögum áður en forsetinn átti hið fræga símtal við forseta Úkraínu.

Tim Morrison nokkur tók við sæti hennar í þjóðaröryggisráðinu og er hann meðal þeirra bandarísku embættismanna sem Guðlaugur Þór Þórðarson hefur fundað með. Sá fundur átti sér stað í Washington í síðasta mánuði en í sömu ferð hitti utanríkisráðherra fjölda þingmanna Bandaríkjanna og ræddi viðskiptamál, vegabréfsáritanir og norðurslóðir.

Ný og ný andlit á fundum

Fiona Hill er reyndar meðal margra sem Guðlaugur hefur átt fundi með sem hafa látið af stöfum fyrir Bandaríkjastjórn. Þeirra á meðal er fyrrnefndur Mattis en hann sagði starfi sínu sem varnarmálaráðherra lausu í janúar síðastliðnum, í kjölfar fyrstu yfirlýsingar Donalds Trump um að hann hygðist draga herlið sitt frá norðurhluta Sýrlands. Mattis er meðal þeirra sem gagnrýnt hafa forsetann hvað harðast fyrir nýjustu ákvarðanir hans í málefnum Sýrlands.

Í sumar fundaði Guðlaugur með Dan Coats, þá yfirmanni leyniþjónustumála Bandaríkjastjórnar, en hann var um tíma sterklega grunaður um að hafa skrifað aðsenda, nafnlausa grein í New York Times, 5. september 2018 um óstjórnina í Hvíta húsinu. Fyrrnefnd Fiona Hill er reyndar einnig meðal grunaðra í því máli. Þau sögðu bæði embættum sínum lausum fyrr á þessu ári. Nöfn þeirra beggja hafa einnig verið nefnd í ágiskunum vestanhafs um uppljóstrara sem sendi þar til bærri stofnun upplýsingar um samskipti Donalds Trump og nánustu samstarfsmanna hans við æðstu ráðamenn Úkraínu.

Bandaríkjaþing hefur nú tekið embættisfærslur hans til formlegrar skoðunnar og hvort þær geti varðað embættismissi.

Dan Coats, fyrrverandi yfirmaður leyniþjónustumála fundaði með Guðlaugi í Reykjavík í sumar. Hann er einn þeirra sem orðaður hefur verið við nafnlausa grein sem birtist í New York Times 5. september 2018 um upplausnarástandið í Hvíta húsinu.
Fréttablaðið/AFP

Þá má einnig nefna Andreu Thompson, fyrrverandi aðstoðarráðherra í afvopnunar- og öryggismálum, sem Guðlaugur fundaði með í Washington í lok október á síðasta ári. Hún er sérhæfð í samskiptum við Rússland en sagði af sér vegna meintra tengsla við rússneskan aðgerðarsinna, Mariu Butinu, sem hlaut nýverið fangelsisdóm í Bandaríkjunum eftir að hafa játað að hafa í samráði við háttsettan rússneskan embættismann, gert tilraunir til að komast til áhrifa innan Sambands bandarískra byssueigenda (National Rifle Association, NRA), án þess að gera grein fyrir tengslum sínum við Kreml.

Mikil áhersla á varnarmál

Guðlaugur hefur átt fundi með fjölmörgum embættismönnum um varnarmál og má ætla að þeir fundir varði bæði þátttökuna í NATO og tvíhliða samstarf ríkjanna tveggja í varnarmálum. Á grundvelli tvíhliða samninga Íslands og Bandaríkjanna fer nú fram uppbygging á öryggissvæði Keflavíkurflugvallar eins og töluvert hefur verið fjallað um í fjölmiðlum.

Bandarískir hermenn æfðu sig hér á landi í október á síðasta ári á æfingunni Trident Jungture.

Auk fyrrnefndra funda með Fionu Hill, Andreu Tompson, Dan Coats og varnarmálaráðherranum Mattis, sem öll hafa látið af störfum, átti Guðlaugur sem fyrr segir fund með Tim Morrisson, eftirmanni Fionu Hill í þjóðaröryggisráðinu. Hann fundaði einnig með Michael J. Murphy og Thomas Guffus, vararáðherrum í utanríkis- og varnarmálaráðuneytum Bandaríkjanna í október á síðasta ári þegar árlegt samráð um öryggis- og varnarmál millli ríkjanna fór fram en þá var fjölmennt lið frá Bandaríkjunum og öðrum NATO ríkjum hér á landi í tengslum við æfinguna Trident Juncture.

Geir H. Haarde, þá sendiherra í Washington, átti nokkra fundi með fyrrnefndum Murphy í september, október og nóvember í fyrra, en hann er yfirmaður málefna Íslands í utanríkismálaráðuneyti Bandaríkjanna. Murphy á langan feril að baki í utanríkisþjónustunni og fer með öryggismál í Evrópu, þar á meðal á Norðurlöndum og Balkanskaga og á vettvangi Atlantshafsbandalagsins.

Þjóðirnar sem valdið hafa ringulreið í Bandaríkjunum

Samskipti utanríkisráðherra Íslands við leiðtoga þeirra ríkja sem orsakað hafa mesta ringulreið í Bandaríkjunum í valdatíð Trumps eru mismikil og taka einnig mið af almennri þátttöku í alþjóðasamstarfi á borð við varnarsamstarfið í Nató, norðurslóðasamstarf og fleira.

Samskipti Íslands og Rússlands

Skráð samskipti Guðlaugs við rússneska ráðamenn eru ekki mikil en þó er í frétt á vef Stjórnarráðsins greint frá fundi hans með Sergey Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, í Finnlandi þann 6. maí síðastliðinn. Fundurinn var haldinn í aðdraganda utanríkisráðherrafundar Norðurskautsráðsins þar sem Ísland tók við formennsku. Fram kemur að ráðherrarnir hafi rætt málefni ráðsins en einnig tvíhliða samskipti ríkjanna; innflutningsbann Rússlands á íslenskum sjávarafurðum, mannréttindamál, ágreining við Rússland á vettvangi Evrópuráðsins og öryggismál í Evrópu, þar á meðal stöðuna í Úkraínu.

Í dagskrá ráðherra kemur einnig fram að ráðherra hefur tvívegis þegið kvöldverðarboð rússneska sendiherrans á Íslandi; þann 28. nóvember í fyrra og 27. júní á þessu ári.

Í frétt á vef Stjórnarráðsins 30. ágúst síðastliðinn er fjallað um árlegt utanríkispólitískt samráð Íslands og Rússlands. Fór það fram hér á landi. Meðal umræðuefna viðræðnanna voru tvíhliða samskipti ríkjanna, svæðisbundið samstarf, öryggismál og mannréttindi en varautanríkisráðherra Rússlands, Vladimir Totov, tók þátt í viðræðunum og átti stuttan fund með Guðlaugi Þór Þórðarsyni.

Norrænn fundur um Úkraínu í miðju fjölmiðlafári

Utanríkisráðherra hefur átt nokkur samtöl við ráðamenn í Úkraínu. Fyrst í maí í fyrra þegar utanríkisráðherrar ríkjanna áttu fund í Danmörku, en þeir sóttu þar fund utanríkisráðherra Evrópuráðsins. Í júlí sama ár var haldinn leiðtogafundur NATO með Georgíu og Úkraínu og áttu ráðherrarnir þá einnig tvíhliða fund. Þess ber að geta að þessir fundir áttu sér stað í tíð fyrri ríkisstjórnar Úkraínu, en forsetaskipti urðu í Úkraínu í apríl á þessu ári, þegar Volodymyr Zelensky hafði betur í kosningunum gegn sitjandi forseta, Petro Porosjenkó. Zelensky hefur ratað í heimsfréttirnar síðustu vikurnar vegna símtals þeirra Donalds Trump, forseta Bandaríkjanna, sem nú er orðið efni sérstakrar rannsóknar Bandaríkjaþings.

Hinn 19. september síðastliðinn, eða um sama leyti og bandarískir fjölmiðlar voru að greina frá kvörtun uppljóstrara innan úr stjórnkerfinu sem laut að samskiptum forseta Bandaríkjanna við Úkraínuforseta, sótti nýr sendiherra Íslands í Washington „norrænan fund“ á vegum utanríkisráðuneytis Bandaríkjanna um málefni Úkraínu. Fundinn boðaði Kurt Volker, þáverandi sérstakur erindreki Bandaríkjanna í málefnum Úkraínu. Hann sagði af sér aðeins viku síðar vegna Úkraínuhneykslisins, og tilkynnti afsögn sína nokkrum klukkutímum eftir að Bandaríkjaþing tilkynnti að honum yrði gert að bera vitni hjá þingnefnd vegna málsins.

Volker gaf skýrslu í þinginu 3. október síðastliðinn þar sem hann afhenti eftirrit textaskilaboða sem fóru milli hans og ráðgjafa Úkraínuforseta og þykja benda til þess að framboðin hernaðaraðstoð við Úkraínumenn væri bundin því skilyrði að Úkraínumenn rannsökuðu forsetaframbjóðanda demókrata, Joe Biden, og son hans Hunter Biden.

Volker átti sjálfur fund með Zelenzsky daginn eftir hið fræga símtal Trumps við Úkraínuforseta. Tveimur dögum síðar sagði Dan Coats, sem fundaði með Guðlaugi í sumar eins og fyrr er getið, af sér sem yfirmaður leyniþjónustumála Bandaríkjastjórnar. Afsögn hans leiddi af sér mikla spennu um hvort eftirmaður hans, hver sem hann yrði, myndi afhenda þinginu, kvörtun uppljóstrarans.

Nýkosinn forseti Úkraínu varð sér af óvörum eitt helsta viðfangesefni heimsfréttanna á dögunum en símtal hans við forseta Bandaríkjanna hefur hrundið af stað rannsókn sem gæti varðað Donald Trump embættismissi.
Getty

Meðan á öllu þessu gengur í Bandarískum stjórnmálum og háværum þverpólitískum átökum um þá stefnu Bandaríkjastjórnar í málefnum Sýrlands í ofanálag, er utanríkisráðherra hvergi af baki dottinn um eflingu samskipta Íslands og Bandaríkjanna. Hann hefur ferðast minnst sex sinnum til Washington frá því í maí á síðasta ári, auk ferða til annarra borga vestanhafs. Ráðherrar ríkisstjórnar Donalds Trump eru einnig orðnir tíðir gestir á Íslandi en á þessu ári hafa bæði utanríkisráðherra og orkumálaráðherra Bandaríkjanna heimsótt Ísland, auk varaforsetans Mike Pence sem kom hingað í heimsókn í september.

Guðlaugur átti fund með James Mattis, þáverandi varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, í Pentagon í fyrra.
Getty

Fundaði um gráa listann með embættismönnum í Washington

Enn eru ónefnd samskipti sendiherra Íslands við ráðamenn í Washington. Bryndís Erlendsdóttir afhenti Donald Trump nýverið trúnaðarbréf sitt í Hvíta húsinu. Meðal funda sem hún hefur átt síðan hún tók við sendiherrastöðunni er fundur sem hún átti í síðustu viku vegna yfirvofandi skráningar Íslands á gráan lista FATF um peningaþvætti, en sendiherrann fundaði um málið með embættismönnum í utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna í Washington 7. október síðastliðinn, sama dag og tvö frumvörp voru lögð fram á Alþingi til að bregðast við ábendingum FATF og forða Íslandi frá því að lenda á listanum. Frumvörpin fóru hratt í gegnum þingið og voru orðin að lögum á tveimur dögum.

Færslur úr dagskrá ráðherra

Samskipti Íslands og Bandaríkjanna samkvæmt dagskrá utanríkisráðherra og tilkynninga á vef stjórnarráðsins frá maí 2018. Með fylgja einnig færslur um ríki sem deilt er um í bandarískum stjórnmálum.

- 13. apríl 2018: Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkis- og alþjóðamál.

- 14. maí 2018: Fundur í Washington með Dr. Fionu Hill, þjóðaröryggisráði Bandaríkjanna, um alþjóðamál.

- 15. maí 2018: Fundur í Pentagon með James Mattis, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, um varnarmál.

- 15. maí 2018: Fundur í Washington með Dan Sullivan öldungadeildarþingmanni um norðurslóðamál.

- 15. maí 2018: Fundur í Washington með Lisu Markowski öldungadeildarþingmanni um norðurslóðamál.

- 16. maí 2018: Fundur í Washington með Ed Royce, formanni utanríkismálanefndar fulltrúadeildar, um alþjóðamál og samskipti Íslands og Bandaríkjanna.

- 17. maí 2018: Fundur utanríkisráðherra Evrópuráðsins í Danmörku.

- 17. maí 2018: Fundur með utanríkisráðherra Úkraínu.

- 5. júní 2018: Símtal við Mike Pompeo nýjan utanríkisráðherra (heillaóskir).

- 11. júlí 2018: Leiðtogafundur NATO í Brussel.

- 12. júlí 2018: Leiðtogafundur NATO með Georgíu og Úkraínu.

- 12. júlí 2018: Tvíhliðafundur utanríkisráðherra Íslands og Úkraínu.

- 18. október 2018: Árlegt samráð við Bandaríkin um öryggis- og varnarmál.

- 19. október 2018: Fundur í Reykjavík með aðstoðarráðherrum í utanríkis- og varnarmálaráðuneytum Bandaríkjanna (á Hringborði norðurslóða).

- 21. október 2018: Fundur í Reykjavík með Lisu Murkowski, þingmanni Alaska, (á Hringborði norðurslóða).

- 21. október 2018: Fundur með Michael J. Murphy og Thomas Guffus, vararáðherrum í utanríkis- og varnarmálaráðuneytum Bandaríkjanna um varnarmál.

- 29. október 2018: Fundur með Andreu Thompson, þáverandi aðstoðarráðherra afvopnunar- og öryggismála í utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna, um afvopnunarmál.

28. nóvember 2018: Kvöldverður í boði rússneska sendiherrans.

- 4. - 5. desember 2018: Utanríkisráðherra á fundi Atlantshafsbandalagsins í Brussel.

- 7. janúar 2019: Fundur í Washington með Fionu Hill (skráður í dagbók sendiherra Íslands í Washington).

- 7. janúar 2019: Fundur í Washington með Mike Pompeo utanríkisráðherra Bandaríkjanna, um viðskiptamál, öryggis- og varnarmál og norðurslóðir.

- 19. janúar 2019: Tilkynning um vinnu Landhelgisgæslunnar við deiliskipulag öryggissvæðisins á Keflavíkurflugvelli.

- 15. Febrúar 2019: Fundur í Reykjavík með Mike Pompeo um viðskiptamál, öryggis- og varnarmál og norðurslóðir.

- 4. mars 2019: Fundur með David Malpass, þáverandi aðstoðarfjármálaráðherra Bandaríkjanna, ásamt öðrum utanríkisráðherrum Norðurlanda og Eystrasaltsríkja, vegna framboðs til formennsku hjá Alþjóðabankanum.

- 25. mars 2019 Útboðum vegna framkvæmda á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli lokið.

- 28. mars 2019: Rússneskar herflugvélar inn í loftrýmiseftirlitssvæði við Íslands

- 11. apríl 2019: Ferðadagur til Washington

- 1. maí 2019: Breytt öryggisumhverfi á norðurslóðum - Skýrsla ráðherra til Alþingis.

- 6. maí 2019: Fundur í Finnlandi með Sergei Lavrov utanríkisráðherra Rússlands.

- 22. maí 2019: Fundur í Washington með aðstoðarráðherra Bandaríkjanna um málefni hafsins.

- 23. maí 2019: Fundur í Washington með Tim Gallaudet, skrifstofustjóra málefna hafs og vatns, í bandaríska viðskiptaráðuneytinu um málefni hafsins og norðurslóðir.

- 23. maí 2019: Fyrsti norðurslóðaviðburðurinn í formennskutíð Íslands í Washington.

- 7. júní 2019: Fundur í Reykjavík með Manisha Singh, þáverandi aðstoðarráðherra í málefnum hagvaxtar, orku og umhverfismála.

- 11. júní 2019: Símafundur með utanríkisráðherra Tyrklands.

- 20. júní 2019: Fundur í Reykjavík með Daniel Coats, yfirmanni leyniþjónustumála hjá Bandaríkjastjórn.

- 23. júní 2019: Auglýsing um deiliskipulag öryggissvæðisins á Keflavíkurflugvelli

- 26. - 27. júní 2019: Varnarmálaráðherrafundur NATO í Brussel.

- 27. júní 2019: Kvöldverður í boði rússneska sendiherrans gagnvart Íslandi í Reykjavík.

- 28. júní 2019 Fundað um viðskipta- og efnahagsmál með viðskiptafulltrúa Bandaríkjanna

- 9. ágúst 2019: Fundur með bandarískum þingmönnum í Reykjavík um viðskipti, norðurslóðir og öryggismál (Doug Jones, John Neely Kennedy, Richard Shelby og Key Granger).

- 19. ágúst 2019: Donald Trump lýsir áhuga á að kaupa Grænland.

- 21. ágúst 2019: Utanríkisráðherra heimsækir Grænland

- 22. ágúst 2019: Símtal við Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, vegna fyrirhugaðrar heimsóknar Mike Pence, varaforseta Bandaríkjanna.

- 22. ágúst 2019: Trump hættir við heimsókn til Danmerkur.

- 30. ágúst 2019: Fundur í Reykjavík með Vladimir Titov, varaforseta Rússlands.

- 4. september 2019: Heimsókn Mike Pence til Íslands.

- 17. september 2019: Fundur í Washington með Tim Morrisson, þjóðaröryggisráði Bandaríkjanna.

- 17. – 18. september 2019: Fundir í Washington með nokkrum bandarískum þingmönnum um viðskiptamál, vegabréfsáritanir og norðurslóðir. (John Neely Kennedy, Larsen, Joe Manchin, Richard Shelby, Chellie Pingree, Lisa Murkowski).

- 23. september 2019: Nýr sendiherra afhendir Bandaríkjaforseta trúnaðarbréf.

- 7. október 2019: Fundur Bryndísar Erlendsdóttur, sendiherra Íslands í Washington með embættismönnum í utanríkisráðuneyti BNA um FATF peningaþvættismál.

- 10. október 2019: Fundur í Keflavík með Rick Perry, orkumálaráðherra Bandaríkjanna um tvíhliða samstarf ríkjanna.