Ófremdarástand er í kirkjugörðunum í Fossvogi og Gufunesi vegna rusls sem gestir skilja eftir sig. Helena Sif Þorgeirsdóttir, umsjónarmaður Gufuneskirkjugarðs segir mikið óflokkað rusl safnast upp í kirkjugörðunum. „Þetta er rusl sem fólk er með á leiðunum, blómapottar og líka heimilissorp. Fólk er að henda úr bílunum sínum,“ segir Helena í samtali við blaðamann.

„Þetta var hrikalegt.“

Garðarnir fjarlægðu flokkunarruslatunnur sem hægt var að henda rusli í þar sem garðgestir sinntu ekki flokkunartilmælum. „Það gekk ekki upp því fólk henti öllu í þetta og svo þurftum við að flokka upp úr þessu. Þetta var hrikalegt. Fólk var að henda fullorðinsbleyjum, stómapokum og sprautunálum og öllum fjandanum. Við gáfumst bara upp á því,“ segir Helena og segir starfsmenn garðanna nú frekar nota tímann sem fór í ruslflokkun í að sinna leiðunum og garðinum.

Fólk skilur við ruslið á jörðinni eftir að flokkunartunnurnar voru fjarlægðar.
Mynd/Helena Sif Þorgeirsdóttir

Gríðarlegur kostnaður af því að farga óflokkuðu rusli

„Við bjóðum upp á ákveðna staði þar sem hægt er að losa sig við lífrænan úrgang en ætlumst til þess að fólk taki með sér ruslið. Það er svo gríðarlega mikill kostnaður í förgun á óflokkuðu rusli," segir Helena sem segir ástandið slæmt bæði í Fossvogskirkjugarði og Gufuneskirkjugarði.

Aðstaða er til að henda lífrænum úrgangi í garðinum en ætlast er til að gestir taki annað rusl með sér.

„Við erum að reyna að vera eins umhverfisvæn og við getum. Það felst mikill sparnaður í því. Ef við hendum öllum kertadósum í óflokkað rusl þá vegur það svo þungt, það er svo dýrt," segir Helena sem vonast til að garðgestir taki meiri ábyrgð á því sem þeir koma með í garðinn í framtíðinni.

Mynd/Helena Sif Þorgeirsdóttir
Mynd/Helena Sif Þorgeirsdóttir