Aðgerðarhópurinn Öfgar hefur skilað inn umsögn um nýja þingsályktunartillögu um aðgerðir gegn kynferðisbrotum og aukinn stuðning við þolendur þeirra.

Gísli Rafn Ólafsson, þingmaður Pírata, er flutningsmaðurinn tillögunnar en meðflutningsmenn hans eru þvert á flokkslínur frá Pírötum, Flokki fólksins, Viðreisn og Sjálfstæðisflokknum. Þingmenn vilja að Alþingi feli innanríkisráðherra að undirbúa og koma í framkvæmd sérstakri aðgerðaráætlun, meðal annars með því að auka fjármagn til lögreglu og auka þjónustu og úrræðum fyrir þolendur.

Tanja M. Ísfjörð Magnúsdóttir og Þórhildur Gyða Arnarsdóttur undirrita umsögnina fyrir hönd Öfga.

Hópurinn segir að ef til standi að auka fjármagn til lögreglunnar þurfi að tryggja að starfsfólk embættisins sæki námskeið um kynferðisofbeldi. Í sjöunda lið tillögunnar er lagt til að opinber stuðningur verði efldur og úrræðum fjölgað fyrir þolendur kynferðisbrota á aldrinum 14 til 18 ára. Öfgar leggja til að slíkt úrræði verði á vegum barnaverndar.

„Það þarf meiri stuðning og utanumhald um þá gerendur, þar sem þeim er kennt að axla ábyrgð.“

Kerfið búið til af körlum fyrir karla

Hópurinn segir að tillögur og frumvörp leysi ekki vandann í heild sinni.

„Kerfið er búið til af körlum fyrir karla, það er ekkert rými fyrir fólk sem skilgreinir sig ekki karlkyns. Kerfið er karllægt og kemur það niður á þolendum kynbundins ofbeldis. Í rauninni þyrfti að fara fram gagngera endurskoðun á dómskerfinu í heild sinni, rífa það upp með rótum og byggja upp á nýtt,“ segir í umsögn Öfga. Hópurinn leggur til að setja á laggirnar embætti sérstaks saksóknara í kynferðisbrotamálum.

„Þar yrði ráðið inn fólk með kynjafræðiþekkingu, reynslu af því að vinna með þolendum, sálfræðingar sem sérhæfa sig í áfallastreituröskun og fleiri sem hafa sérstaka þekkingu í málaflokknum. - Hægt væri að halda fund þar sem fólk sem lætur sig málið varða ásamt sérfræðingum í kynferðisbrotamálum koma saman. Á þeim fundi væri hægt að draga fram hluti sem betur mættu fara .“

Eins gera Öfgar athugasemd á hlutfall dóma sem Landsréttur hefur mildað og hlutfall skilorðsbundinna dóma í kynferðisbrotamálum.

„Það þarf meiri stuðning og utanumhald um þá gerendur, þar sem þeim er kennt að axla ábyrgð. Það er ekki réttlátt að dómur sé mildaður vegna þess að rannsókn lögreglu tók svo langan tíma eða vegna þess að málinu hefur verið frestað að fara fyrir dómstóla, það á ekki að bitna á þolanda.“

Hægt er að lesa umsögn Öfga og annarra í heild sinni hér á vef Alþingis.