Bar­áttu­hópurinn Öfgar hefur sent frá sér svar við pistli eftir fyrrum hæsta­réttar­dómarann Jón Steinar Gunn­laugs­son sem birtist í Morgun­blaðinu á dögunum. Pistill Jóns Steinars vakti mikla at­hygli en þar sagði hann besta leiðin til að sporna gegn kyn­ferðis­brotum væri að draga úr neyslu á­fengis og vímu­efna. Öfgar gagn­rýna skrif Jóns Steinar harð­lega og segjast vilja leið­rétta rang­færslur hans í pistli sem þær birta á femíníska vef­tíma­ritinu Knúz.

„Okkur grunar að þú hafir ruglast að­eins sem getur komið fyrir á bestu bæjum.
Við­horf þitt er alda gamalt og virkaði það lengi vel til að þagga niður í þol­endum. Of­beldi er aldrei á á­byrgð þol­enda, það er á­vallt á á­byrgð ger­enda. Þol­endur hafa skilað skömminni. Jón Steinar, vin­sam­legast ekki reyna að þröngva henni upp á okkur aftur.“

Öfgar segja það þekkt að þol­endur hafi þurft að bera skömm af of­beldi og segja þá hafa mátt sæta miklu mót­læti í gegnum tíðina svo að vera drekkt, vera lokaðir inni á geð­sjúkra­húsum og vera hraktir úr sam­fé­laginu.

„Slaufunar­menningin hefur verið ríkjandi í um­ræðunni á þessu ári. Okkur í Öfgum langar að minna þig á að gjörðir ger­enda og opin­berun gjörða þeirra virðast hafa litlar af­leiðingar hvað varðar þátt­töku í í­þróttum eða brott­rekstur úr vinnu. Það hefur einnig litlar af­leiðingar hvort sem þeir fara í gegnum réttar­kerfið og hljóti þar dóm, málið sé fellt niður eða þeir séu nafn­greindir á sam­fé­lags­miðlum. Á sama tíma gerist það gjarnan að þol­endur hrekjast burt, hljóta ör­orku, glíma við vímu­efna­vanda og þola opin­bera smánun svo nokkur at­riði séu upp talin.“

Þá gefa þær lítið fyrir hina marg­um­töluðu slaufunar­menningu og segja hana eiga lítið við um ger­endur en þeim mun frekar um þol­endur og stuðnings­fólk þeirra.

„Pistill þinn, Jón Steinar, er í heild sinni enn ein “hvernig á ekki að láta nauðga sér” að­ferðin sem í­trekað er troðið á þol­endur, á­kveðinn plástur á vanda­málið og falskt öryggi. Þol­endur þurfa ekki fleiri á­bendingar, við þurfum fræðslu, for­varnir og vitundar­vakningu á öll skóla­stig. Með því að beina spjótum okkar að upp­rætingu vandans drögum við frekar úr tíðni of­beldis og gerum ger­endum kleift að axla á­byrgð og sýna fram á betrun.“

Í stjórn Öfga sitja þær Helga Ben, Hulda Hrund, Ólöf Tara, Ninna Karla, Tanja M. Ís­fjörð og Þór­hildur Gyða.
Mynd/Öfgar

Eiga á meiri hættu að leiðast út í vímu­efna­neyslu

Að sögn Öfga eiga þol­endur of­beldis á meiri hættu á að leiðast út í vímu­efna­neyslu því al­gengt sé að þeir leiti í vímu­efni til að deyfa sig og komast yfir á­föllin sem þeir hafa orðið fyrir. Það sé þó engin af­sökun fyrir of­beldi því á­byrgðin sé alltaf gerandans.

„Ef kona býr við of­beldi eykur það líkur á það að konan mis­noti vímu­efni. Á­byrgðin er alltaf gerandans, ekki þolandans. Það skiptir ekki máli hversu mikið þolandi drakk eða drakk ekki, það á aldrei að brjóta á öðrum. Oft þegar þol­endur deyfa sig með vímu­efnum er aftur brotið á þeim. Í pistli þínum segir þú þol­endum að ef þau hefðu bara sleppt því að neyta vímu­efna hefðu þau sloppið. Sú orð­ræða er skað­leg og ekki byggt á stað­reyndum mála.“

Þá telja Öfgar skrif Jóns Steinars vera sér­stak­lega skað­leg í ljósi þess að þol­endur of­beldis eru mun lík­legri en aðrir til að reyna að taka sitt eigið líf.

„Í rann­sókninni “The Cost of Do­mestic Vio­l­ence” kemur fram að ein af hverjum átta konum sem látist hafa af völdum sjálfs­vígs voru þol­endur heimilis­of­beldis. Þar er einnig bent á hversu margar konur láta lífið af völdum maka eða fyrrum maka, verða fyrir heimilis­of­beldi o.s.frv. Í víð­tækustu rann­sókn um of­beldi hér á landi (á­falla­saga kvenna) kemur fram að 40% kvenna hafa orðið fyrir of­beldi á lífs­leiðinni. Það eru 69.000 konur. Ert þú, Jón Steinar, að segja að þessar 69 þúsund konur á aldrinum 18-70+ þurfi að passa sig að drekka minna?“

Öfgar segja þetta að­eins vera brota­brot af þeim rang­færslum sem finna megi í skrifum Jóns Steinar og segja við­horf hans „undir­strika að við eigum enn langt í land og hvað sam­fé­lagið er fjand­sam­legt gagn­vart þol­endum of­beldis.“ Þá í­treka þær að ekki sé hægt að draga úr tíðni of­beldis með þol­enda­skömmun, heldur sé að­eins hægt að draga úr tíðni of­beldis með því að draga ger­endur til á­byrgðar.

Undir svar­bréfið skrifar stjórn Öfga; Helga Ben, Hulda Hrund, Ólöf Tara, Ninna Karla, Tanja M. Ís­fjörð og Þór­hildur Gyða. Svar­bréfið má lesa í heild sinni á vef­tíma­ritinu Knúz.