Brynja: „Árið byrjaði pínu með hvelli í rauninni. Það byrjar náttúrlega á þessari árás á þinghúsið og öllu í kringum það. Þar létust fimm manns og svo tveimur dögum fyrr var málinu hans Julian Assange áfrýjað í Magistrate Court í Bretlandi þannig að hann var ekki framseldur til Bandaríkjanna. Þetta gerðist allt bara í sömu fyrstu vikunni.“

Guðmundur: „Já, þetta mál í Bandaríkjunum – það var náttúrlega ótrúlegt að fylgjast með þessu því það var alveg búinn að vera svolítið langur aðdragandi. Trump var ítrekað búinn að grafa undan niðurstöðum kosninganna og ýja að því að hann myndi ekki láta friðsamlega af völdum. Svo er hann þarna að espa upp stuðningsfólk sitt með beinum og óbeinum hætti á Twitter.

Að horfa á þetta í beinni útsendingu, maður var orðinn vanur svo miklu rugli. Þegar ég spóla til baka og hugsa um þetta, hvað þetta var algjörlega fáránlega absúrd að vera að horfa á þetta í beinni útsendingu. Bara sitjandi í sófanum: „Heyrðu, það er eitthvað skrýtið að fara að gerast. Já, ætli þeir séu ekki að fara að ráðast inn í þinghúsið?“ Manni fannst það bara nokkuð beisik miðað við það sem á undan hafði gengið.“

Brynja: „Það sem er líka svo skrýtið í þessu samhengi er að þetta var bara augljóst framhald af öllu bullinu sem er búið að byggjast upp svo lengi í Bandaríkjunum. International Crisis Group var búið að gefa út að hættan á pólitísku ofbeldi í Bandaríkjunum og einhverju svona kosningaofbeldi hefði aldrei verið meiri, sem er eitthvað sem maður sér vanalega í samhengi við lönd sem eru nýkomin með lýðræði. Írak, Afganistan, eða nýstofnuð ríki eins og Suður-Súdan. Bandaríkin eru einhvern veginn allt í einu á þeim stað að það er varað við kosninga­ofbeldi.“

Mótmælendurnir komust alla leiðina
fréttablaðið/getty

Dystópísk heimsmynd

Þið talið um hversu absúrd það sé að maður sé orðinn vanur svona rugli.

Guðmundur: „Akkúrat og þessu tengt þá voru fréttamyndir sem bárust frá Brussel, minni gömlu heimaborg, þar sem aprílgabb var sett inn á Facebook. Það var einhver klúbbur sem auglýsti að það yrði úti-rave í garði í Brussel. Svo var smáaletur þar sem stóð: „Þetta er aprílgabb, ekki mæta, það er útgöngubann.“ En það mættu bara tugir þúsunda. Svo sérðu vídeóklippur af þessu þar sem löggan kemur á hestum inn í garðinn með vatnsúðara og kylfur. En þetta fólk er ekki að gera neitt annað en það sem það gerði vanalega, bara safnast saman í einhverjum garði, það voru engin mótmæli.“

Brynja: „Mér finnst líka bara með þessa árás á Capitol Hill í Bandaríkjunum eða bara allt sem er búið að vera að gerast þar undanfarin ár. Mér finnst eins og það hafi bara sprungið að endingu í þessari árás. Það sýnir bara einhvern veginn hvað Bandaríkin eru á ógeðslega flóknum stað. Hvað hægri öfgahyggjan er rísandi, með Proud Boys og öllum þessum alt-right hópum og hvað Bandaríkin eru ólík okkur og Evrópu í mentalíteti. Eins og núna er verið að endurskoða þungunarrofslöggjöfina. Þau eru að taka rosa mikið af skrefum í afturhaldsátt.“

Guðmundur: „En þetta er allt saman svo ofboðslega mikil afleiðing stjórnartíðar Trumps. Hann er bara búinn að tvískipta Bandaríkjunum. Auka á þessa pólaríseringu, eða skautun eins og við höfum kallað það. Skipta þessu í við og hinir. Þessi ríki þar sem Repúblikanar hafa alltaf verið í meirihluta eins og til dæmis Texas þar sem þessi þungunarrofslöggjöf var samþykkt upphaflega. Þetta er svo skýr afleiðing af þeim popúlisma sem Donald Trump hefur búið til.“

Brynja: „Alveg algjörlega, bara klárlega. Hann er líka samt að einhverju leyti birtingarmynd einhvers sem var búið að vera að byggjast upp og svo kemur hann og er eins og einhver svona hvati eða catalyst á þetta allt saman.“

Guðmundur: „Bandaríkin verða í mörg ár að vinda ofan af þessu ef þau ná því einhvern tíma. Joe Biden tekur við náttúrlega bara alveg klofinni þjóð. Hans fyrsta verk í embætti er að skrá Bandaríkin aftur inn í Parísarsáttmálann og svona hreinsa upp eftir forvera sinn. En það er ofboðslega fátt sem bendir til þess að Joe Biden sé eitthvað að fara að laga ímynd Bandaríkjanna út á við. Það eru engar stórar stefnubreytingar í neinu.“

Brynja Huld og Guðmundur Björn fóru yfir árið sem er að líða.
Fréttablaðið/Anton Brink

Harmleikurinn í Afganistan

Harmleikur ársins var án efa fall Afganistan. Brynja, þú hefur náttúrlega sjálf starfað í Afganistan.

Brynja: „Að mínu mati er fall Afganistan klárlega viðburður ársins. Þessar tvær, þrjár vikur í ágúst voru auðvitað mjög átakanlegar en allt sumarið var það náttúrlega líka. Að fylgjast með Afganistan bara versna og versna og versna síðastliðna mánuði og horfa á þjóðina núna á barmi hungursneyðar og undir gífurlega ofríki Talibana. Þetta er pínu eins og fall Berlínar­múrsins en mér finnst smá eins og fólk sé ekki alveg að átta sig á því hversu stór þessi viðburður er.“

Guðmundur: „Náttúrlega það sem er svo sérstaklega sorglegt í þessu er að þetta var vitað. Ég tók viðtal við Brynju í júní þar sem hún er að segja nákvæmlega þetta. Talibanar eru búnir að vera að vinna alveg gríðarlega á, alveg frá því að Bandaríkjastjórn og Talibanar skrifa undir samkomulag í Doha 2020 um að Bandaríkin fari gegn því að Talibanar uppfylli einhver ákveðin skilyrði. Þú varst að benda á þetta í þessu viðtali. Mig minnir að þú hafir sagt við mig þá að það væri talið að afganski herinn gæti haldið í svona einn til tvo mánuði ef Talibanar myndu láta til skarar skríða. Það reyndust svo vera fimm dagar á endanum, þegar þeir svo gerðu það.“

Brynja: Að mínu mati er fall Afganistan klárlega viðburður ársins. Þessar tvær, þrjár vikur í ágúst voru auðvitað mjög átakanlegar en allt sumarið var það náttúrlega líka. Að fylgjast með Afganistan bara versna og versna og versna síðastliðna mánuði og horfa á þjóðina núna á barmi hungursneyðar og undir gífurlega ofríki Talibana.

Öfgar í allar áttir

Hvaða áhrif mun fall Afganistan hafa á heiminn og Vesturlönd?

Brynja: „Mér finnst eitt svolítið áhugavert í þessu, af því þarna erum við með öfga-íslam, bókstafstrú Talibana og svo náttúrlega Al-Shabaab, Boko Haram og aðra hópa. En svo á sama tíma er uppgangur hægrisins sem sést svo mikið í árásinni á Capitol Hill í Bandaríkjunum. Það eru svo miklar öfgar og mér finnst eins og við séum að sjá þá togast einhvern veginn í allar áttir, fjær miðjunni í átt að meiri öfgum sitt í hvora áttina. Þetta er ekki einu sinni hægri, vinstri, heldur bara lengra frá miðjunni í allar áttir.“

Guðmundur: „Já, algjörlega. Við lifum gríðarlega öfgafulla tíma. Í hugmyndafræðinni á hinu geopóli­tíska sviði eru ofboðslegar öfgar, það er alveg rétt.“

Brynja: „Við lifum í hnattvæddum heimi og mér finnst vera svona innprentað í okkur flest að hnattvæðingin sé góð og við séum öll að færast nær. En svo koma upp svona krísur og þá er maður bara: „Af hverju erum við að skipta okkur af svona mikið? Hvar er hjólið brotið?“ Til dæmis þegar Ever Given gámaskipið festist í Súesskurðinum. Mér finnst 2021 vera svolítið svona ár. Það eru þúsundir hjóla sem þurfa að ganga saman og ef eitt stoppar, eins og gerðist með Súesskurðinn, þá fer allt á hliðina.“

Guðmundur: „Covid sýnir þetta líka, hvað þessar keðjur eru brothættar. Það er enn þá verið að vinna upp framleiðsluskort. Fólk getur ekki keypt sér Playstation-tölvur af því framleiðsla á einhverjum skrúfgangi stoppaði í Kína í tvo mánuði.“

Brynja: „Og bara þessir sex dagar sem Ever Given stoppaði í Súesskurðinum eru enn þá, hálfu ári seinna, að valda seinkunum á alls konar varningi.“

Guðmundur: „En af því við vorum að tala um alls konar öfgar áðan. Þá er kannski svolítið táknrænt að einn mesti málamiðlari evrópskra stjórnmála er núna nýfarinn frá. Angela Merkel, sem sat á kanslarastóli næstlengst allra kanslara sameinaðs Þýskalands. Hana vantaði bara nokkra daga til að slá met Helmut Kohl. Við sjáum hana fara út á sama tíma og allir þessir hlutir eru að gerast, þessar öfgar og þessi popúlismi er að rísa upp. Reyndar er sá sem er að taka við af henni mjög líkur henni, Olaf Scholz, þannig séð. En við höfum líka séð á síðustu árum að AFD, þjóðernis­popúlistum í Þýskalandi, þeim hefur vaxið fiskur um hrygg.“

Brynja: „Hægriöfgahyggjan er náttúrlega á leiðinni upp í allri Evrópu og ég held að það verði mjög áhugavert á næsta ári af því það eru forsetakosningar í Frakklandi í maí. Ég held það verði gífurlega áhugavert að sjá hvað gerist þar.“

Málfrelsi og blaðamennska

Guðmundur: „Það sem ég held að sé kannski ein stærsta fréttin í ár. Það birtist nýlega skýrsla frá fjölmiðlum án landamæra, þar sem kemur fram að á Covid-tímum hefur málfrelsi og frjáls blaðamennska skerst til muna um allan heim. Svo á föstudaginn í síðustu viku, þá var áfrýjunardómstóll í Lundúnum að snúa við ákvörðun héraðsdóms um að breskum stjórnvöldum beri ekki að framselja Julian Assange. Þau komast að þeirri niðurstöðu núna að þau megi framselja hann til Bandaríkjanna ákveði innanríkisráðherra að gera svo.

Þetta er náttúrlega alveg fordæmalaus dómur því í fyrsta lagi er Assange ákærður á grundvelli mjög gamallar njósnalöggjafar þar sem Bandaríkjastjórn hefur reynt að sýna fram á að hann sé ekki blaðamaður heldur sé hann hryðjuverkamaður sem er að stunda njósnir. Þetta setur það fordæmi fyrir blaðamenn um allan heim, fari það svo að hann verði framseldur og dæmdur í fangelsi í Bandaríkjunum, að Bandaríkjastjórn gæti ákært hvaða blaðamann sem er, hvar sem er fyrir að skrifa gegn sér eða deila upplýsingum sem varða þjóðarhagsmuni Bandaríkjanna.“

Brynja: „Þetta þýðir í rauninni að lögsaga nái út fyrir landamæri landsins varði það blaðamenn og upplýsingar sem snerta þjóðaröryggi og þjóðarhagsmuni hvers ríkis.“

Fréttablaðið/Anton Brink

Loftslagsbreytingar

Náttúruhamfarir urðu víða um heim á árinu. Erum við ekki svolítið farin að sjá á eigin skinni afleiðingar loftslagsbreytinga?

Guðmundur: „Jú, ég held það, því miður. Allavega ef maður hlustar á vísindamenn, jarðvísindamenn og veðurfræðinga, það sem þeir hafa verið að tönglast á síðustu ár er að þessar öfgar í veðurfari muni bara ágerast. Ég heyrði nú síðast bara í vikunni að ein birtingarmynd veðurfarsöfga á Íslandi væri að það eigi eftir að rigna meira hérna. Þannig að við njótum ekki einu sinni góðs af heimsendi.

Eins bjartsýnir og margir sérfræðingar voru eftir COP26 þá er gríðarlegt verkefni fram undan að fá þessa stærstu umhverfissóða heims, Kína, Indland, Bandaríkin og Ástralíu meðal annars, til þess að standa sig í stykkinu. Þetta eru svona stærstu existensíalísku ákvarðanir örugglega í sögu mannkynsins sem verða teknar á næstu árum. Og þær eru í höndum stjórnmálamanna. Það verður mjög athyglisvert að sjá hvort markaðsöflin sigri sköpunina.“

Brynja: „Ég er ekkert gífurlega bjartsýn á að það náist. Þetta er auðvitað bara ógeðslega stórt vandamál og það þurfa svo mörg púsl að ganga upp til að leiðtogar í þessum stóru löndum nái að komast að samkomulagi og gera eitthvað sem skiptir máli. Það fóru allir inn í COP26 með rosa hugmyndir en svo virðist einhvern veginn á endanum að búið sé að þynna þetta svolítið út. En svo mun tíminn leiða í ljós hversu mikið fólk stendur við hlutina.“

Guðmundur: „Það er stundum sagt í siðfræðinni að til þess að öll stríð á jörðinni myndu hætta og það kæmist á friður milli þjóða þá þyrfti utanaðkomandi óvin sem væru geimverur sem væri hægt að koma sér saman um að berjast gegn. Þetta er utan að komandi óvinur mannkyns og jarðarinnar en þrátt fyrir það virðist ekki hægt að vinna bug á honum. Það er náttúrlega búið að vinna alveg ótrúlega gott starf og það er ótrúlegt hvað þó miklum árangri mörg ríki hafa náð en þetta lítur ekki vel út.“

Covid aukið pólaríseringu

Við siglum nú inn í þriðja árið þar sem veiran heldur áfram að plaga okkur. Ástandið er ágætt hér á landi en víða annars staðar í heiminum er það þó enn mjög slæmt.

Brynja: „Mér finnst þetta tengjast þessum pælingum með hnattvæðinguna. Við búum í mjög hnattvæddum heimi og það að það er alltaf að koma nýtt og nýtt afbrigði er kannski að gerast af því það er ekki búið að bólusetja svo mikið í þróunarlöndum. Vesturlönd eru kannski svolítið að hamstra bóluefni og þá kemur það náttúrlega og bítur okkur í rassinn. Eins og Omíkron-afbrigðið, af því við búum í hnattvæddum heimi þá getum við ekki bara bólusett okkur öll en ekki þróunarlöndin.“

Guðmundur: „Og aftur, þetta er eitthvað sem var búið að vara við. Forstöðumaður Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar skammaði Vesturlönd fyrir að hamstra bóluefni, meira að segja fyrir að gefa örvunarskammta á meðan það voru kannski 20 prósent heimsbyggðarinnar bólusett. Á meðan þetta er svona, á meðan þetta Covax-samkomulag er ekki virkt og það er ekki staðið við það þá losnum við ekkert við þessa veiru. Það er bara þannig og þetta er bara nákvæmlega sama dæmi og við sjáum með umhverfisvána eða loftslagsbreytingar. Að þú hugsar fyrst um þinn eigin hag áður en þú lítur á heildarsamhengið og það bítur þig í rassinn.“

Guðmundur: Án þess að ég vilji gerast of háfleygur þá, út frá trúarlegu samhengi, væri hægt að færa rök fyrir því að við séum að lifa endatímana. Heimsendir í flestum trúarritum er af mannavöldum, þar sem maðurinn einhvern veginn keyrir sköpunarverkið í þrot eða elur á óeiningu sín á milli.

Brynja: „Akkúrat. Af því í rauninni í þessu þá snýst þetta ekki um að setja súrefnisgrímuna á sjálfan sig fyrst. Það þarf að bólusetja alla eða finna einhverja lausn fyrir alla en ekki bara fyrir Evrópusambandið og Bandaríkin.“

Guðmundur: „En það sem er líka áhugavert við Covid og við höfum séð mjög mikið á þessu ári er hvernig þessi ógn hefur jafnvel aukið enn frekar á pólitíska pólaríseringu á milli fólks og skipt fólki upp í hópa. Þá er ég ekki bara að tala um andstæðinga bóluefnis og þá sem finnst bóluefni allt í lagi, andstæðingar bóluefnis eru auðvitað í miklum minnihluta. En miklu frekar þá fólk sem finnst einhvern veginn að frelsi sínu og réttindum vegið. Það er í sjálfu sér jákvætt að fólk sé áhugasamt um sín lýðræðislegu réttindi og gangi ekki að þeim sem vísum eða finnist það sjálfsagt að ríkisstjórnir hamli eða setji einhverjar skorður á frelsi sitt. Þetta hefur dregið það fram í dagsljósið, þennan núning, og jafnvel alið enn meira á ósætti og óeiningu á milli fólks sem ætti að vera að reyna að vinna að sama markmiði.“

Brynja: „Ég held einmitt að þegar maður horfir til baka á 2021 þá er það þessi svakalega skautun í stjórnmálum, sérstaklega vestrænum stjórnmálum, ég myndi alveg setja hana sem mjög stóran áhrifavald á 2021. Þó svo að fall Afganistan og árásin á þinghúsið í Bandaríkjunum séu klárlega svona stóru, stóru fréttirnar. En skautunin og þessi ímyndarstjórnmál eru einhvern veginn undir þessum atburðum.“

Guðmundur: „Án þess að ég vilji gerast of háfleygur þá, út frá trúarlegu samhengi, væri hægt að færa rök fyrir því að við séum að lifa endatímana. Heimsendir í flestum trúarritum er af mannavöldum, þar sem maðurinn einhvern veginn keyrir sköpunarverkið í þrot eða elur á óeiningu sín á milli. Kannski er þetta normið, við erum náttúrlega ekkert sérstaklega gömul, kannski hefur þetta alltaf verið svona en síðustu ár hafa verið alveg sérstaklega mikið í þessa átt.“