Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra, Þorsteinn Víglundsson þingmaður Viðreisnar og fyrrverandi félags- og jafnréttismálaráðherra og Helga Vala Helgadóttir þingkona Samfylkingarinnar voru gestir í Morgunútvarpinu á Rás 2.

Þar sögðust þau styðja Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, í því að þingmennirnir sex sem sátu að sumbli og níddu bæði samstarfsfólk sitt og ýmsa samfélagshópa á Klaustur Bar þann 20. nóvember síðastliðinn, séu ofbeldismenn. Þau sögðu ábyrgðina á málinu vera hjá þeim.

Sjá einnig: Um­mælin „al­gjört of­beldi“ og ó­fyrir­gefan­leg

Lilja Al­freðs­dóttir sagði í viðtali við Kastljós í gær að hún gæti ekki fyrir­gefið ó­geð­felldu um­mælin sem um hana voru látin falla í sam­ræðum þing­manna Mið­flokksins á Klaustri bar. Um sé að ræða al­gjört of­beldi en hún kveðst hafa bognað og varla náð svefni kvöldið sem frekari upp­tökur birtust í þessari viku.

Viðtalið hefur varið sterk viðbrögð meðal almennings og sagðist Svandís í morgun að hún væri sammála öllu því sem Lilja sagði í viðtalinu í gær. Svandís sagði að setning Lilju um að slíkir ofbeldismenn ættu ekki að hafa dagskrárvald á Íslandi væri lykillinn að því að skilja aðstæður.

„Já ég er það. Og mér finnst raunar þessi setning sem kom frá henni í gær og rammaði inn hennar skilgreiningu á stöðunni með það að ofbeldismenn hafa ekki dagskrárvald á Íslandi, mér finnst þetta algjörlega vera lykillinn að því að skilja þetta mál. Og við hin eigum að standa með Lilju og öðrum sem urðu fyrir beinum árásum af hendi þessara manna,“ sagði Svandís Svavarsdóttir í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun.

Ofbeldismenn eiga að víkja

Svandís sagði að ofbeldismenn ættu að víkja, ekki þau sem þau beittu ofbeldi með tali sínu. 

Þau vísuðu því öll frá í viðtalinu að á Alþingi væri kúltúr ofbeldis eða slíkrar umræðu sem að þingmennirnir viðhöfðu á Klaustur Bar.Bæði Sigmundur Davíð og Anna Kolbrún, þingmenn Miðflokksins, hafa ítrekað í viðtölum eftir atvikið bent á að slíkur kúltúr þrífist þar.

Spurð hvort þeir eigi að segja af sér sagði Svandís: „Lausnin á þessari stöðu er hjá gerendunum“ sagði Svandís og sagði að hún gæti ekki verið hjá neinum öðrum og sagði að þeir þyrftu að axla ábyrgð á þeirri stöðu sem er komin upp á þinginu og sagði að án þess væri ekki hægt að halda þingsköpum áfram.

Ekki flokkspólitískt mál

Helga Vala benti á að aðstæður væru ekki flokkspólitískar og það væri sjálfsagt mál að kalla inn varamenn og sagði að málið einskorðaðist við þá einstaklinga sem sátu á barnum, að aðrir flokksmenn flokkanna væri sómafólk.

„Þetta hefur með hatursorðræðu að gera, þetta hefur með ofbeldi að gera og það eru þessir einstaklingar sekir um og það hefur ekkert með stjórnmálaflokka að gera,“ sagði Helga Vala.

Allir að reyna að finna farsæla lausn saman

Svandís sagði að það væru allir hugsi og væru að ræða saman og allir flokkar væru að reyna að finna leið út úr málinu sem er þinginu til sóma.

Hægt er að hlusta á viðtalið í heild sinni hér.