Maður hefur verið ákærður fyrir að koma manneskju í lífsháska ekki til hjálpar. Refsing við brotinu á hegningalögum getiur varðað allt að tveggja ára fangelsi

Varðar ákæran dauðsfall barnsmóður hans sem lést úr of stórum skammti fíkniefna í fyrra. Fréttastofa RÚV greindi fyrst frá þessu og er maðurinn sagður margdæmdur ofbeldismaður. Konan var á fertugsaldri og fjögurra barna móðir.

Eftir að andlát konunnar bar að var mannsins, sem er faðir þriggja barna hennar, leitað í um sólarhring og var hann handtekinn þegar lögregla hafði upp á honum.

Er maðurinn sagður hafa hlotið á annan tug refsidóma áður, aðallega fyrir ofbeldi og fíkniefnamisferli. Hann hefur einnig hlotið dóm fyrir að hvetja stúlku undir lögaldri til fíkniefnaneyslu.

Miðað við fyrri dóma vegna þessa brots á hegningarlögum má búast við refsingu milli tíu og átján mánaða fangelsisvistar.