Skáldsagan Söngvar Satans er aftur komin í heimspressuna eftir að höfundur hennar, Salman Rush­die, slasaðist lífshættulega í hnífstunguárás í New York í síðustu viku. Bókin hefur verið umdeild meðal múslima frá því hún kom út vegna meints guðlasts höfundarins í umfjöllun sinni um líf Múhameðs spámanns. Ruhollah Khomeini, æðstiklerkur Írans, gekk svo langt árið 1989 að gefa út álitsgerð, eða fatwa, þar sem hann lýsti því yfir að taka bæri Rushdie af lífi vegna bókarinnar.

Deilurnar í kringum bókina eru flestum vel kunnar en færri þekkja efni hennar eða ástæður þess að hún hefur móðgað svo marga. Sverrir Agnarsson, fyrrverandi formaður Félags múslima á Íslandi, segist ekki undrast að Söngvar Satans veki svo sterk viðbrögð hjá múslimum.

„Í garð múslima er þetta veruleg sögufölsun. Maður getur skrifað út frá einhverjum forsendum og breytt hinu og þessu. En í bókinni er vísvitandi verið að svívirða og uppnefna spámanninn, ráðgjafa hans og eiginkonur hans.“

Sverrir Agnarsson.

Meðal þeirra hluta bókarinnar sem Sverrir segir hafa farið fyrir brjóstið á múslimum eru kaflar þar sem sagt er frá vændishúsi þar sem tólf vændiskonur eru nefndar eftir eiginkonum Múhameðs spámanns. Þá segir Sverrir að það hafi farið öfugt ofan í marga að virtar persónur úr íslamstrú, á borð við Gabríel erkiengil og Salman hinn persneska, einn af fylgismönnum Múhameðs, séu hafðar að háði og spotti.

Sverrir telur að Rushdie hafi ritað Söngva Satans á sínum tíma beinlínis með það að markmiði að espa múslima upp. „Hann veit nákvæmlega hverju hann á von á þegar hann skrifar þetta. Hann gerir þetta eins illkvittið og hann getur.“

Sverrir setur reiði múslima vegna bókarinnar jafnframt í samhengi við það sem hann segir vera útúrsnúninga og blekkingar á Kóraninum allt aftur til 12. aldar. „Þessi linnulausi áróður og rangfærslur lifa góðu lífi í alls konar formi eins og til dæmis hjá Robert Spencer og Billy Warner og öfgakenndri íslamófóbíu sem hefur tröllriðið vesturlenskum miðlum í áratugi.“

Þó er Sverrir gagnrýninn á viðleitni til að refsa Rushdie fyrir guðlastið með ofbeldi, enda segir hann slík viðbrögð ekki samræmast Kóraninum. „Kóraninn er frekar afdráttarlaus um svona lagað, að þegar einhver hallmælir manni eða talar við mann á óviðeigandi hátt svarar maður bara með friðarorðum.“

Sverrir segir gæta almenns misskilnings um það að skylda hafi verið lögð á alla múslima að ráða Rushdie af dögum. „Fatwa er ekki dauðadómur, fatwa er álitsgerð. Allir sem ná einhverri ákveðinni menntun geta gefið út fatwa en þeir sem fylgja þeim eða biðja um fatwa ráða því hvort þeir fari eftir því eða ekki. Khomeini gaf út það álit að Salman Rushdie hefði framið glæp sem yrði að drepa fyrir. Hvort einhver tekur upp hjá sér að framkvæma það er allt annað mál.“

Sverrir bendir á að árið 1998 hafi Mohammad Khatami, þáverandi forseti Írans, lýst því yfir að stjórnin styddi ekki lengur að Rushdie yrði drepinn. Þá segir hann að menn sem grípa til ofbeldis í nafni íslamstrúar séu upp til hópa ómenntaðir og fáfróðir um inntak sjaríalaga. „Ég hef sagt að besta leiðin til að vinna á hryðjuverkamönnum væri að kenna þeim betur að fylgja sjaría.“