Nanna Elísa Jakobsdóttir var beitt grófu kynferðislegu ofbeldi fyrir um ári síðan á meðan hún stundaði nám við Columbia háskólann í Bandaríkjunum. 

Nanna segir frá því ferli sem hún gekk í gegnum í kjölfar ofbeldisins í ítarlegum pistli á Facebook-síðu sinni í vikunni. Hún segir að kerfið sé langt frá því að vera fullkomið en það hafi hjálpað henni mikið að skýrir verkferlar hafi verið til staðar. Hún segist vonast til þess að hennar saga geti orðið til þess að fleiri stígi fram og tilkynni. Hún segir þó einna helst vonast til þess að bæði fyrirtæki og stofnanir bregðist við með því að setja slíka ferla. 

„Ég skrifaði þetta og ef þetta getur hjálpað einhverjum, þá er það frábært,“ segir Nanna Elísa Jakobsdóttir í samtali við Fréttablaðið í kvöld.

Háskólinn hefur sjálfur lögsögu

Nanna hefur í gegnum allt ferlið deilt stöðunni með vinum sínum á Facebook og segir frá því að þegar niðurstaða var ljós í máli hennar hafi hún deilt því og fundið fyrir miklum stuðningi frá samnemendum sínum.

„Það voru margar stelpur, samnemendur mínir, sem komu til mín og þökkuðu mér fyrir að hafa sagt frá. Þær sögðu mér að þær höfðu lent í sambærilegri reynslu en aldrei sagt frá. Eins og ég skrifaði þá, þá var það mér mjög mikilvægt að hafa fyrirmyndir sem höfðu stigið fram áður. Ef það er eitthvað sem ég get gert, þá vil ég gera það líka,“ segir Nanna Elísa.

Nanna segir að kynferðislegt ofbeldi sé mikið vandamál í bandarísku háskólasamfélagi. Hún segir í færslu sinni á Facebook ítarlega frá því ferli sem fór í gang eftir að hún tilkynnti. Nanna segir að kerfið í Bandaríkjunum sé að miklu leyti ólíkt því sem að þekkist hér á Íslandi. Háskólarnir hafi sjálfir lögsögu yfir slíkum málum og beri ekki að tilkynna kynferðisofbeldi sem á sér stað innan veggja skólans eða á þeirra svæði til lögreglunnar.

Mál Nönnu að mörgu leyti einstakt

Hún segir að þótt svo að kerfið sé ekki fullkomið og þurfi á stöðugri endurskoðun að halda þá hafi henni liðið eins og sér væri trúað og hún fundið fyrir sterkum stuðningi í gegnum allt ferlið. Hún segir þó að sitt mál sé að mörgu leyti einstakt.

„Ég reyna að passa að nefna alltaf að mitt mál er að mörgu leyti einstakt. Allar sögur eru mismunandi. Skólinn var góður við mig og í raun gerði allt fyrir mig, en ég hafði mjög sterk sönnunargögn. Ég vona, þó ég viti ekki hvort það sé þannig, að það sé eins farið með sögur og mál frá konum þar sem að kannski sést ekki ofbeldið á líkamanum á þeim,“ segir Nanna Elísa.

Nanna segir að hennar reynsla af kerfinu við háskólann hafi að mestu leyti verið góð og það megi að miklu leyti rekja til þess að skýrir verkferlar hafi verið til staðar.

„Það voru skýrir verkferlar til staðar sem ég fór beint í. Það var rosalega góð tilfinning að finna að þetta var tekið alvarlega strax frá upphafi, en líka að það sé verkferill yfir höfuð. Þá fær maður það á tilfinninguna að þetta sé ekki eitthvað sem er skömmustulegt sem á að ýta undir teppið eða maður á að bera einn. Maður finnur að þetta er vandamál sem að skólinn þarf að tækla og er skyldugur til þess að bera ábyrgð með þolandanum. Mér fannst það rosalega mikilvæg upplifun,“ segir Nanna.

Hún segir að hún hafi upplifað það sama á spítalanum þegar hún leitaði þangað eftir að brotið var á henni.

„Það var ekki mitt einkamál. Ef þú lítur á söguna hvernig þetta snertir konur þá má sjá að þær hafa að miklu leyti verið einar og hafa þurft að skammast sín,“ segir Nanna.

Ofbeldið ekki einkamál þolenda

Í þessu samhengi segir hún líka að það hafi eflaust skipt máli að hún sé frá Íslandi og hafi alist upp við þau viðhorf að kynferðislegt ofbeldi sé ekki einkamál þolenda.

„Ég hafði alist upp við það á Íslandi að svona atvik væru ekki einkamál og það væri eðlilegt að tala um það og opna sig,“ segir Nanna.

Í pistli sínum á Facebook ræðir Nanna einnig um #metoo bylgjuna sem hófst stuttu eftir að mál hennar kom upp. Hún segir að það hafi að mörgu leyti hjálpað henni, en hafi á sama tíma það verið mjög sársaukafullt og þreytandi.

„Það var mjög skrítið að þetta var í gangi á sama tíma og #metoo. Það var einhvern veginn bæði sársaukafullt, en á sama tíma var stuðningur í því. Ég velti því oft fyrir mér hvort að fólkið sem ég hitti í skólanum, sem unnu að málinu mínu, hvort þau hafi verið undir áhrifum frá #metoo í sinni vinnu. Hvort það hefði bein áhrif á það hvernig var komið fram við mig. Það hlýtur að vera að einhverju leyti. En svo kom á móti að það var kerfi til staðar þannig þau voru skyldug til að fylgja þeim reglum hvort eð er,“ segir Nanna.

Setti allt lífið í bið

Allt ferlið tók um átta mánuði. Hún segir að málið hafi sett allt líf hennar í bið og þótt hún hafi lokið námi í maí sé hún aðeins tiltölulega nýfarin að vinna.

„Þetta er allt mjög óráðið. Þetta mál setti eiginlega allt líf mitt í bið. Það eina sem ég gat gert var að útskrifast. Ég byrjaði rosalega seint að pæla í framtíðinni og sækja um vinnur. Núna er ég að byrja og er í tímabundinni ráðningu. Ég veit ekki alveg hvernig þetta fer allt saman en það verður spennandi að sjá,“ segir Nanna.

Hún segir að seinna árið í námi hafi verið hrikalega erfitt og að hún hafi á einum tímapunkti verið komin á fremsta hlunn með að hætta í skólanum og koma heim. Hún segir að meðferð slíkra mála ætti að taka miklu styttri tíma.

„Þetta var mikil þrautaganga og ég var komin á fremsta hlunn með það að hætta. Ég er ánægð með ferlið en það var allt of langt. Mér hafði verið sagt að þetta myndi taka tvo til þrjá mánuði en í febrúar var ég búin að vera að kljást við þetta í sex mánuði. Þá sagði ég við foreldra mína að ég ætlaði að hætta og koma heim. Ég var alveg búin á því. Líf mitt snerist ekki um neitt nema að mæta í tíma og ég var oft að biðja um fresti á verkefnum, sem ég þoli ekki að gera,“ segir Nanna.

Hún segir að það hafi bjargað henni að eiga marga góða vini að úti og að á sama tíma og hún gekk í gegnum allt ferlið hafi hún kynnst núverandi kærastanum sínum sem hafi stutt hana í gegnum það allt. „Það var fallegt í öllum þessum ljótleika.“

Hvetur fyrirtæki og stofnanir til að setja sér skýra verkferla

Nanna segir að lokum að með því að deila sinni sögu vilji hún hvetja fyrirtæki og stofnanir til að setja sér verkferla. Það sé öryggisatriði fyrir brotaþola og það sé gríðarleg þekking til staðar. Það sé því í raun engin afsökun til að hafa þá ekki til staðar. 

„Ég vil rosalega mikið hvetja fyrirtæki og vinnustaði til að setja sér verkferla. Ég veit að þetta er oft eitthvað sem situr á hakanum þar til svona mál koma upp. Ég vona að allar íslenskar stofnanir séu búnar að fara í gegnum þessa vinnu. Það eru eflaust margar búnar að því, en það væri áhugavert að skoða hverjir eru búnir og hverjir ekki. Þetta er svo mikið öryggisatriði. Það er svo mikil þekking til staðar, þannig það er engin afsökun fyrir því að hafa ekki mjög skýra verkferla til staðar í svona málum. Hafa til dæmis óháða nefnd til að fara yfir málið og vera með stuðningsnet innan stofnanna og fyrirtækja. Við erum alveg komin þangað og að mínu mati er það alveg nauðsynlegt,“ segir Nanna að lokum.

Færslu Nönnu er hægt að sjá hér að neðan. Hún er birt hér með hennar leyfi.