Ofbeldi af hendi maka, kynferðisbrot og innflutningur á marijúana eru meðal brota sem hafa aukist í samkomutakmörkunum og heimsfaraldri Covid-19 hér á landi.

Lögreglan hefur tekið saman markverða tölfræði úr störfum sínum á árinu 2021.

Gunnar Hörður Garðarsson, samskiptastjóri lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, tekur fram að um sé að ræða bráðabirgðatölur sem eigi enn eftir að breytast. Upplýsingarnar gefi þó innsýn í það hvert stefnir.

Hér má sjá breytingu milli ára. Þjófnaður hefur aukist mikið í faraldrinum.
Mynd: Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu

Lögreglan skráði 189 þúsund mál á árinu sem er að líða sem jafngildir 518 málum á sólarhring eða um 22 málum á hverri klukkustund. Um 43 prósent mála voru skráð á höfuðborgarsvæðinu, 15 prósent á Vesturlandi, 11 prósent á Suðurlandi og 10 prósent á Suðurnesjum. Hraðakstursbrot eru lang algengust, eða 62 prósent af heildarfjölda brota.

Lögreglu bárust um 82 þúsund tilkynningar um brot árið 2021, þar af rúm 13.000 hegningarlagabrot, rúm 5.000 sérrefsilagabrot og um 64.000 umferðarlagabrot.
Mynd: Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu

Fjöldi tilfella ofbeldis af hendi maka aldrei verið fleiri

Um 9 prósent aukning var á tilkynningum um ofbeldisbrot en síðustu þrjú ár á undan og fjölgaði ofbeldisbrotum hlutfallslega mest á Suðurlandi, um 50 prósent. Tæplega 75 prósent ofbeldisbrota eru minniháttar líkamsárásir og eru karlar um 73 prósent gerenda í ofbeldisbrotum og meðalaldur um 33 ára.

Fjöldi heimilisofbeldismála er svipaður og á síðasta ári, rúmlega þúsund tilvik eða um 3 tilvik á dag. Aukning hefur þó orðið á ofbeldi af hendi maka og fyrrverandi maka á árinu 2020 og 2021. Sömuleiðis er aukning á ofbeldi af hendi fjölskyldumeðlims.

Fjöldi tilfella ofbeldis af hendi maka/fyrrum maka síðustu tvö árin hafa aldrei verið fleiri samkvæmt málaskrá lögreglu, voru kringum 750 talsins bæði árin. Ofbeldi af hendi foreldris voru um 100 á árinu og af hendi barns í garð foreldris um 160 talsins.

#MeToo-bylgja gekk hér yfir í annað sinn: þolendur rufu þögnina í kjölfar umræðu um gerendameðvirkni og hávær krafa var uppi um ábyrgð gerenda og þátttöku karla í umræðunni um kynferðisofbeldi.
Fréttablaðið/Eyþór Árnason

Karlar 82 prósent gerenda í kynferðisbrotamálum

Kynferðisbrotum fjölgaði í Covid, tæplega tvö kynferðisbrot voru tilkynnt að meðaltali á dag, alls 662 brot á árinu, um 24% fleiri en í fyrra.

Árið 2020 voru tilkynntar nauðganir óvenju fáa sem lögreglan telur að megi mögulega rekja það til samkomutakmarkanna, þar sem afgreiðslutími bara og skemmtistaða voru í skert drjúgan hluta árs og minna um almennt skemmtanahald. Tilkynntar nauðganir voru 161 árið 2020 en árið 2021 voru þær 216, svipaður fjöldi og 2019.

Karlar voru um 82 prósent gerenda í kynferðisbrotamálum og var meðalaldur geranda lægri en í ofbeldisbrotunum, eða um 28 ára.

Innflutningur á marijúana hefur aukist mikið í faraldrinum.
Mynd: Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu

Umtalsverð aukning á innflutningi fíkniefna

Fíkniefnabrotum fækkaði miðað við síðustu þrjú ár; varsla og meðferð fíkniefna fækkaði um nærri þriðjung og brot er varða framleiðslu fíkniefna fækkaði einnig.

Umtalsverð aukning var þó á innflutningi fíkniefna en brotin voru um 281 árið 2021 en að meðaltali 159 síðustu þrjú ár á undan. Mest var haldalagt af marijúana eða um 140 kíló. Aldrei hefur meira magn marijúana verið haldlagt, mest var tekið vegna framleiðslu en þó komu einnig upp tvö stór innflutningsmál. Þá var lagt hald á um 12 kíló af kókaíni og 13 kíló af amfetamíni.

Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn hjá miðlægri rannsóknardeild Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, sagði mögulegan útflutning kannabis vera til skoðunar. „Okkur hefur fundist töluvert mikið um ræktun og þess vegna verið að velta vöngum um hvort neyslan sé svona svakalega mikil eða hvort þetta sé til útflutnings,“ sagði Grímur við Fréttablaðið fyrr í mánuðinum.

Ræktun á kannabis hér innanlands jókst mjög eftir efnahagshrunið og hefur verið stöðug síðan. Í faraldrinum jókst innflutningur á marijúana.

Þúsund tilkynningar um sóttvarnabrot

Lögreglan fékk yfir þúsund tilkynningar um sóttvarnabrot á árinu eða um 3 tilkynningar á dag.

Flest brot voru í aprílmánuði, eða 35 talsins, en flesta mánuði voru brotin á bilinu 20-30 talsins. Allt árið voru þau um 260, en um 210 í fyrra.

Ekki voru allir að hlýða Víði.
Fréttablaðið/Getty