Byggðarráð Múlaþings vill að sérfræðingar ofanflóðavarna meti kostnað við gerð varanlegra varna við svæðið við Búðará á Seyðisfirði þar sem mikil aurflóð ollu stórtjóni í desember.

Á fundi byggðarráðsins var lagt fram minnisblað frá Veðurstofu Íslands varðandi endurskoðað hættumat fyrir svæðið frá Búðará að Skuldalæk á Seyðisfirði. Sveitarstjórinn sagði frá fundi með sérfræðingum Veðurstofunnar, Eflu og fulltrúa Ofanflóðasjóðs varðandi innihald minnisblaðsins. Hann gerði einnig grein fyrir matsgerðum vegna tjóns á sex húsum og íbúðum við Hafnargötu og fundi með fulltrúa Ofanflóðasjóðs um matsgerðirnar. Byggðarráð samþykkti síðan að óska eftir stuðningi Ofanflóðasjóðs vegna fyrirhugaðra kaupa á húseignunum.