Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, vísar fullyrðingum Persónuverndar um að atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hafi leynt upplýsingum, alfarið á bug en í færslu á Facebook síðu sinni segir Kristján Þór fullyrðingarnar vera hreinan rógburð.
Vísar Kristján þar til viðbrögðum Persónuverndar við skýrslu um eignarhald stærstu fyrirtækjanna í sjávarútvegi. Persónuvernd sagði ýmsar rangfærslur að finna í skýrslunni og gerði alvarlegar athugasemdir við svar varðandi úrvinnslu viðkvæmra persónuupplýsinga, birtingu hluthafa og upplýsingar um raunverulega eigendur.
„Þegar ríkisaðilar telja að vafi leiki á því hvort hægt sé að veita umbeðnar upplýsingar eru gefnar skýringar til Alþingis. Það átti við í þessu tilviki að Skatturinn taldi vafa leika á um hvort persónuverndarlög stæðu því í vegi að tilteknar upplýsingar væri unnt að veita,“ segir Kristján í færslu sinni og bætti við að unnið hafi verið í opnu gagnsæju ferli.
Engu leynt við gerð skýrslunnar
Hvað skráningu raunverulega eigenda varðar vísar Kristján til þess að skipulögð skráning á þeim hafi ekki hafist fyrr en á árinu 2019 og þar af leiðandi torveldi það upplýsingasöfnun um málið frá árinu, líkt og óskað var eftir í skýrslubeiðninni.
„Það er ófaglegt og óviðeigandi af Persónuvernd að saka ráðuneytið, sem gefið hefur skýringar á forsendum upplýsinga sem veittar voru Alþingi, um að leyna upplýsingum eða nota Persónuvernd sem skálkaskjól. Þessu er því alfarið vísað á bug sem hreinum rógburði,“ segir Kristján enn fremur í færslu sinni.
Hann segir ráðuneytið taka lagaskyldu sína um að sinna upplýsingagjöf til Alþingis alvarlega og að þau hafi engu leynt við gerð skýrslunnar. Fullur vilji sé enn fremur hjá ráðuneytinu til að taka saman frekari upplýsingar frá Skattinum ef stuðst er við aðra lagatúlkun en Skatturinn hefur gert.
„Ég hef óskað eftir að ráðuneytið boði fulltrúa Skattsins og Persónuverndar til fundar til að fara nánar yfir þessi atriði og ákveða næstu skref. Þau verða tekin af fagmennsku og virðingu fyrir þeim reglum sem um efnið gilda,“ segir Kristján að lokum.