Sóley var aðeins 25 ára þegar hún fékk þær fréttir að hún væri BRCA2 arfberi, þrátt fyrir að ekki væri þekkt áhætta um krabbamein í nánustu fjölskyldu hennar. Hún átti að hefja eftirlit fimm árum síðar en aðeins liðu tvö ár þar til Sóley sjálf fann hnút í brjósti og greindist í kjölfarið með brjóstakrabbamein.


Þegar hún sá póst frá Þórdísi Erlu Ágústsdóttur ljósmyndara, þar sem hún leitaði að konu í meðferð til að taka þátt í vitundarvakningarverkefni, ákvað hún að senda henni línu.

Sóley er spennt fyrir opnun sýningarinnar og segist hafa séð nokkrar myndir. Mynd/Þórdís Erla

„Fyrst átti ég bara að vera hluti af stóra verkefninu en eftir því sem leið breyttist planið og hún og Anna Margrét Bjarnadóttir, formaður Brakka samtakanna, vildu halda sýningu bara um mig. Í fyrstu var þetta allt mjög yfirþyrmandi en á sama tíma fannst mér ég þurfa að taka þátt, enda ótrúlega mikilvægt málefni.“


Sóley segist hafa ákveðið um leið og hún greindist að vera opin með sín veikindi á Instagram-síðu sinni, @soleybjorg, og segist hafa sótt mikinn styrk í skilaboð frá jafnvel ókunnugu fólki. Hún verður viðstödd opnunina ásamt fjölskyldu sinni og segir eftirvæntinguna mikla.

Sóley ákvað snemma í ferlinu að vera opin með sín veikindi og birtir reglulega myndir og fréttir á instagram síðu sinni @soleybjorg. Mynd/Þórdís Erla

Af hverju ekki ég?


„Ég er búin að sjá nokkrar myndir og það var ótrúlega erfitt að sjá sumar af því ég man nákvæmlega hvernig mér leið þarna og þá ósjálfrátt fer maður að hugsa til baka hversu veik ég var.“


Þórdís fylgdi Sóleyju alla leið og var tekið vel á móti þeim á spítalanum, segir Sóley það jafnvel hafa minnkað stressið að hafa hana með.

„Óþægilegasta myndin var samt þegar hún tók myndir af mér berri að ofan fyrir aðgerðina. Þarna stóð ég með mín brjóst og leið eins og ég ætti að skammast mín fyrir þau. Þau voru ekki fullkomin og ég er búin að hugsa mikið um það hvað fólk muni hugsa þegar það sér mig standa þarna með mín lafandi brjóst.“

Þórdís fylgdi Sóleyju í brjóstnámsaðgerðina og segist Sóley hafa fundið styrk í því að hafa hana með. Mynd/Þórdís Erla

Aðspurð segist Sóley ekki hafa efast um ákvörðunina en nokkrum sinnum hugsað sig um. „En ég endaði alltaf á þeirri skoðun að ég hefði viljað að einhver annar hefði haft hugrekkið í þetta. Þannig, af hverju ekki ég?“

Sýningin Of ung fyrir krabbamein verður opnuð í Gallery Ramskram, Njálsgötu 49, í dag, laugardag, en mun svo verða farandsýning um landið. Í tengslum við sýninguna munu Brakkasamtökin halda fræðslufund 23. október um arfgeng krabbamein, BRCA og aðrar erfðabreytingar í Klínikinni, Ármúla.