Of tímafrekt er að spritta ræðupúltið á Alþingi á milli ræðumanna hverju sinni. Þetta segir Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, í samtali við Fréttablaðið.
Glöggir áhorfendur hjóu eftir því að í gærkvöldi í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra var pontan ekki sprittuð á milli ræðumanna. Alls stigu 23 þingmenn upp í pontu í umræðunum í gærkvöldi og allur gangur á því hvort menn héldu að sér höndum og snertu ekki púltið.
„Það var gert allt sem mögulegt er,“ segir Steingrímur og vísar til sóttvarna á Alþingi. „Í fyrsta lagi með dreifingunni, menn sitja auðvitað ekki hver ofan í öðrum og vel yfir metri á milli og leiðbeiningar um allt hús. Spritt og sprittþurrkur við hvert sæti,“ segir hann.
„Varðandi pontuna, að þá sést það ekki utan frá en þá er stór og áberandi A4 miði sem á stendur „EKKI SNERTA PÚLTIГ og við erum semsagt að reyna að hvetja fólk til þess, að halda höndunum á sér frá púltinu,“ segir þingforsetinn. Sá miði sé reglulega skipt út og í ýmsum litum til að vekja athygli.
„Flestir virða það bara og eru ekkert að halda í púltið eða snerta það. En auðvitað getur alltaf verið að einhverjir gleymi sér og þá verður maður bara að vona að menn spritti sig og þvoi hendur áður en þeir fara að snerta andlitið á sér,“ segir hann.
„En það væri eiginlega ómögulegt að fara að standa í því að sótthreinsa púltið sem slíkt á milli hvers einasta ræðumanns. Það væri mjög tímafrekt og eins og ég segi, vonumst við til þess að fólk hegði sér í samræmi við þetta og snerti ekki púltið.“
Þingmaðurinn Andrés Ingi Jónsson tjáði sig um málið á Twitter í gærkvöldi:
Það eru brúsar út um allt. Ég sprittaði sjálfan mig bæði fyrir og eftir. Vona að sem flest geri það...
— Andrés Ingi (@andresingi) October 1, 2020



