Kristján Örn Kristjánsson, landsliðsmaður í handbolta, skoraði sín fyrstu mörk á stórmóti þegar Ísland vann Marokkó á HM í handbolta sem nú stendur yfir í Egyptalandi. Kristján, sem yfirleitt er kallaður Donni, kom af bekknum undir lokin og skoraði tvö mörk. Hann er fimmti nýliði Íslands á mótinu.

Heima á Íslandi fagnaði fjölskylda hans innkomunni og mörkunum af innlifun með pítsuveislu yfir leiknum. „Þetta var frábær tilfinning. Fjölskyldan var öll að horfa og þó við höfum verið orðin frekar óþolinmóð að bíða eftir honum hlaupa inn á völlinn var þetta skemmtilegt. Við erum auðvitað bullandi hlutdræg en við vildum fá hann fyrr inn á,“ segir Kristján Gaukur Kristjánsson, faðir Donna, stoltur.

Hann sló svo á þráðinn til Egyptalands til að heyra hljóðið í syninum. „Hann var ljómandi kátur. Ég var búinn að tala við hann líka aðeins fyrir og hann var rólegur í tíðinni. Ég var eitthvað að suða í honum að hann ætti að vera þarna inn á, þá svaraði hann: Pabbi, það er nóg af leikjum. Hann er ekkert að stressa sig og bíður rólegur eftir sínum tækifærum.“

Viggó Kristjánsson sem var valinn maður leiksins og Kristján Örn eftir leikinn.
Mynd/Handbolti.is

Kristján segir að Donni hafi verið ofboðslega heppinn með þjálfara í gegnum feril sinn. Í Fjölni hafi Ragnar Hermannsson tekið hann upp á sína arma í fjórða flokki. Boris Bjarni Akbachev tók síðan við honum, en Boris bjó til marga af bestu leikmönnum Vals. Hjá ÍBV var hann undir stjórn Erlings Richardssonar og í Frakklandi þar sem hann er núna atvinnumaður hjá Pays d'Aix UC stýrir Thierry Anti. „Hann hefur verið heppinn að lenda undir stjórn manna sem eru miklir handboltanördar og góðir kennarar.

Donni er rólegur að eðlisfari. Ég man eftir að einu sinni var hann að spila við Stjörnuna í fimmta flokki. Það var eitthvað verið að öskra á hann og kalla og Donni var ekki sáttur. Á leiðinni heim sagði ég að eina leiðin til að þagga niður í svona fólki væri að vinna leikinn. Hann þurfti ekkert að heyra það nema einu sinni. Hann er ekkert að einbeita sér að einhverju sem hann ræður ekki við, heldur því sem gerist inni á vellinum.“

Kristján segir að mamma Donna, Maliwan Phumipraman, hafi pantað pítsuveislu, enda væri hún ekki að fara að elda þegar guttinn væri að spila í fyrsta sinn á stórmóti. „Maður fylgist með öllu þegar er stórmót í handbolta og vill að allir standi sig vel. Við höfum náð að horfa á flestalla leikina í Frakklandi og mamma hans getur nú ekki alltaf horft. Hún verður svolítið stressuð,“ segir Kristján stoltur af guttanum.