„Það er farin af stað ákveðin hrina, ekki jafn kröftug og í byrjun þessa árs en breytingin er sú að við erum að sjá skjálftavirkni sem mælist yfir þrjá í fyrsta sinn frá því að gosið hófst. Það verður að koma í ljós hvað þetta þýðir en það er áhugavert að þetta sé að eiga sér stað á sama tíma og eldgosið hefur legið niðri að undanförnu.“ Þetta segir Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor í jarðeðlisfræði við HÍ, aðspurður um jarðskjálftahrinuna sem staðið hefur undanfarna daga. Magnús Tumi segir erfitt að segja hvort þetta boði að gosið sé að hefjast að nýju.

„Það er ekki hægt að útiloka að þetta boði að gosið hefjist á ný en um leið getur þetta verið spenna sem hefur safnast í svolítinn tíma. Það er of snemmt að segja til um hvort þetta þýði að það fari að gjósa á ný,“ segir Magnús sem telur um leið vera erfitt að spá til um hvort fleiri skjálftar verði um helgina.

„Þessi jarðskjálftahrina er ekki orðin stór en hefur haldist stöðug í nokkra daga. Það er ekki hægt að segja ennþá hvort að það sé von á mörgum skjálftum á næstunni.“