Jóhannes Þ. Skúla­son fram­kvæmda­stjóri Sam­taka ferða­þjónustunnar segir að­vörun banda­ríska sendi­ráðsins til ríkis­borgara sinna um hættu­á­stand í mið­borg Reykja­víkur ekki heppi­lega en of snemmt sé að segja til um hvort Ís­land verði fyrir ein­hvers­konar orð­spors­hnekkis vegna málsins.

Banda­ríska sendi­ráðið varaði fyrr í dag ríkis­borgara sína við hættu­á­standi í mið­bæ Reykja­víkur um helgina og hvatti þá til að forðast marg­menni. Þá voru ríkis­borgarar hvattir til að fylgjast með ís­lenskum fjöl­miðlum vegna á­standsins.

Nokkuð ljóst er að til­kynningin byggir á skila­boðum sem gengu manna á milli á sam­fé­lags­miðlum í gær um meinta hefndar­á­rás vegna hnífs­tungu á Banka­stræti Club síðustu helgi. Margeir Sveins­son að­stoðar­yfir­lög­reglu­þjónn sagði í sam­tali við blaðið að lög­reglan tæki skila­boðunum al­var­lega og hefur lög­regla þegar til­kynnt um aukinn við­búnað um helgina.

„Þetta er náttúru­lega ekki heppi­legt og kannski aðal­lega merki um að það sé sam­fé­lags­legt vanda­mál á ferðinni sem virðist vera nægi­lega al­var­legt til þess að sendi­ráðið sér á­stæðu til að senda frá sér svona að­vörun, sem er mjög ó­venju­legt eins og þú segir á Ís­landi,“ segir Jóhannes að­spurður hvernig þetta blasi við honum.

Hann tekur fram að hann geri sér ekki grein fyrir því hve mikil hætta sé raun­veru­lega á ferðinni um helgina. Of snemmt sé að segja nokkuð til um hvort þetta hafi á­hrif á orð­spor Ís­lands sem öruggur ferða­manna­staður.

„Þetta gerist nú hér og þar í heiminum svona að­varanir hér og þar þannig að ef þetta er ekki við­varandi á­stand, sem við skulum vona að þetta verði ekki, þá held ég nú að þetta sé meira til­fallandi heldur en eitt­hvað sem hafi stór á­hrif.“

Jóhannes segir spurður að Ís­land tróni oftast á toppi lista yfir öruggustu á­fanga­staði í heimi. Það sé hluti af á­sýnd Ís­lands sem ferða­manna­staðar. Banda­rískir ferða­menn eru lang­fjöl­mennasti hópur ferða­manna sem hingað koma eða um 30 prósent.

„Svo eru banda­rísk sendi­ráð víða um heim mjög dug­leg að senda frá sér við­varanir þegar eitt­hvað er í gangi. Þetta er vissu­lega mjög ó­venju­legt á­stand fyrir Ís­land en vonandi leysist bara úr þessu sem fyrst og við fáum ekki ein­hvers­konar við­varandi á­stand í þessu á­fram og maður vonast til þess að þetta verði frekar eitt­hvað eins skiptis at­riði.“