Lyfjastofnun Evrópu, EMA, og Sóttvarnamiðstöð Evrópu, ECDC, hafa gefið út sameiginlega yfirlýsingu um stöðu COVID-19 og bólusetningar en Delta-afbrigði veirunnar, sem varð fyrst vart á Indlandi, dreifir sér nú hratt innan Evrópu og víðar.
Að því er kemur fram í tilkynningu á vef Lyfjastofnunar Íslands benda gögn til að afbrigðið sé 40 til 60 prósent meira smitandi en Alpha-afbrigðið, sem varð fyrst vart á Bretlandi, auk þess sem talið er að Delta-afbrigðið geti aukið hættu á sjúkrahússvist.
Bóluefnin veita fullnægjandi vernd
Mikilvægt sé að ljúka fullri bólusetningu einstaklinga sem fyrst til að veita hámarksvernd gegn veirunni. Bráðabirgðagögn bendi þó til að bóluefnin sem hafa hlotið skilyrt markaðsleyfi í Evrópu virðast þó veita fullnægjandi vörn gegn Delta-afbrigðinu svo lengi sem farið er eftir leiðbeiningum framleiðenda.
Er það mat ECDC að í lok ágúst verði 90 prósent allra virkra smita af völdum Delta-afbrigðisins. „Af þeim sökum er mikilvægt að lönd í álfunni hraði bólusetningum eins og kostur er til að koma í veg fyrir smit og að veiran þróist áfram í enn önnur afbrigði, eins og segir í tilkynningunni,“ segir á vef Lyfjastofnunar.
Skortur á gögnum um endurbólusetningu
Meðal þess sem hefur verið rætt í ljósi þess hversu smitandi Delta-afbrigðið er er endurbólusetning eða að gefa aukaskammt af bóluefni fyrir fullbólusetta, þannig tveir skammtar yrðu í heildina fyrir bóluefni Janssen en þrír fyrir Pfizer, Moderna, og AstraZeneca. Slíkt er þó enn til skoðunar og segja ECDC og EMA of snemmt að segja til um hvort og þá hvenær slíkt verði gert.
„Ástæðan er skortur á gögnum og þekkingu á hversu lengi vörnin af bóluefnunum endist, ekki síst með tilliti til útbreiðslu ólíkra tilbrigða. Samvinna á milli EMA, ECDC og ráðgjafarhóps Evrópulanda um bólusetningar (NITAGs) er nú þegar til staðar ef til þess kæmi að þörf yrði á endurbólusetningu. Öll ný gögn sem verða tiltæk verða yfirfarin með hraði.“
Gæti flýtt fyrir að blanda bóluefnum
Þá er vísað til þess að mörg lönd hafi gripið til þess ráðs að blanda saman bóluefnum, til að mynda hjá einstaklingum sem fengu sinn fyrsta skammt af bóluefni AstraZeneca en seinni frá Pfizer, svo dæmi sé nefnt. Að mati stofnananna eru góðar vísindalegar forsendur fyrir slíku og gæti sú aðferð flýtt fyrir bólusetningum og gert þjóðum kleift að nýta sínar birgðir af bóluefnum.
„Að svo stöddu eru EMA og ECDC ekki í stakk búin til að leggja fram neinar endanlegar ráðleggingar varðandi notkun mismunandi bóluefna gegn COVID-19 þegar tveir skammtar eru notaðir. Engu að síður benda bráðabirgðaniðurstöður rannsókna á Spáni, Þýskalandi og Bretlandi til þess að aðferðin skili fullnægjandi ónæmissvörun og ekki sé að merkja sérstaka hættu af henni. Fleiri gagna er beðið og mun EMA rýna þau þegar þau verða aðgengileg.“