Lyfja­stofnun Evrópu, EMA, og Sótt­varna­mið­stöð Evrópu, ECDC, hafa gefið út sam­eigin­lega yfir­lýsingu um stöðu CO­VID-19 og bólu­setningar en Delta-af­brigði veirunnar, sem varð fyrst vart á Ind­landi, dreifir sér nú hratt innan Evrópu og víðar.

Að því er kemur fram í til­kynningu á vef Lyfja­stofnunar Ís­lands benda gögn til að af­brigðið sé 40 til 60 prósent meira smitandi en Alpha-af­brigðið, sem varð fyrst vart á Bret­landi, auk þess sem talið er að Delta-af­brigðið geti aukið hættu á sjúkra­húss­vist.

Bóluefnin veita fullnægjandi vernd

Mikil­vægt sé að ljúka fullri bólu­setningu ein­stak­linga sem fyrst til að veita há­marks­vernd gegn veirunni. Bráða­birgða­gögn bendi þó til að bólu­efnin sem hafa hlotið skil­yrt markaðs­leyfi í Evrópu virðast þó veita full­nægjandi vörn gegn Delta-af­brigðinu svo lengi sem farið er eftir leið­beiningum fram­leið­enda.

Er það mat ECDC að í lok ágúst verði 90 prósent allra virkra smita af völdum Delta-af­brigðisins. „Af þeim sökum er mikil­vægt að lönd í álfunni hraði bólu­setningum eins og kostur er til að koma í veg fyrir smit og að veiran þróist á­fram í enn önnur af­brigði, eins og segir í til­kynningunni,“ segir á vef Lyfja­stofnunar.

Skortur á gögnum um endurbólusetningu

Meðal þess sem hefur verið rætt í ljósi þess hversu smitandi Delta-af­brigðið er er endurbólusetning eða að gefa auka­skammt af bólu­efni fyrir full­bólu­setta, þannig tveir skammtar yrðu í heildina fyrir bólu­efni Jans­sen en þrír fyrir Pfizer, Moderna, og AstraZene­ca. Slíkt er þó enn til skoðunar og segja ECDC og EMA of snemmt að segja til um hvort og þá hve­nær slíkt verði gert.

„Á­stæðan er skortur á gögnum og þekkingu á hversu lengi vörnin af bólu­efnunum endist, ekki síst með til­liti til út­breiðslu ó­líkra til­brigða. Sam­vinna á milli EMA, ECDC og ráð­gjafar­hóps Evrópu­landa um bólu­setningar (NITAGs) er nú þegar til staðar ef til þess kæmi að þörf yrði á endur­bólu­setningu. Öll ný gögn sem verða til­tæk verða yfir­farin með hraði.“

Gæti flýtt fyrir að blanda bóluefnum

Þá er vísað til þess að mörg lönd hafi gripið til þess ráðs að blanda saman bólu­efnum, til að mynda hjá ein­stak­lingum sem fengu sinn fyrsta skammt af bólu­efni AstraZene­ca en seinni frá Pfizer, svo dæmi sé nefnt. Að mati stofnananna eru góðar vísinda­legar for­sendur fyrir slíku og gæti sú að­ferð flýtt fyrir bólu­setningum og gert þjóðum kleift að nýta sínar birgðir af bólu­efnum.

„Að svo stöddu eru EMA og ECDC ekki í stakk búin til að leggja fram neinar endan­legar ráð­leggingar varðandi notkun mis­munandi bólu­efna gegn CO­VID-19 þegar tveir skammtar eru notaðir. Engu að síður benda bráða­birgða­niður­stöður rann­sókna á Spáni, Þýska­landi og Bret­landi til þess að að­ferðin skili full­nægjandi ó­næmis­svörun og ekki sé að merkja sér­staka hættu af henni. Fleiri gagna er beðið og mun EMA rýna þau þegar þau verða að­gengi­leg.“