Eva Heiða Önnu­dóttir, stjórn­mála­fræðingur, segir of snemmt að segja til um það á þessari stundu að hafa á­hyggjur af dræmri kosninga­þátt­töku í Al­þingis­kosningum í haust. Kosninga­bar­áttan muni lík­lega hefjast af fullum krafti um mánaðar­mót.

Frétta­blaðið heyrði í Evu í til­efni þess að fimm vikur eru til kosninga. Eitt­hvað hefur verið rætt um þreytu meðal lands­manna á tímum heims­far­aldurs og litla stemningu svo skömmu fyrir kosningar. Þær fara fram eftir rúmar fimm vikur, þann 25. september.

Eva segir að­spurð út í stemninguna of snemmt að ör­vænta. Sé tekið mið af kosningum síðustu ára hafi kosninga­bar­áttan staðið fremur stutt yfir. „Og svona fjórum vikum fyrir kosningar fer þetta í gang. Í ljósi þeirrar sögu hef ég ekki á­hyggjur,“ segir hún. Kosningaþátttaka hefur verið í kringum 80 prósent í síðustu Alþingiskosningum.

Eva segist hafa kíkt snögg­lega á heima­síður flokkanna fyrir við­tal. „Og þeir eru flestir sýnist mér að leggja loka­hönd á kosninga­stefnu­skrár, lands­þing og svo fram­vegis.“

Hún segir að sig gruni að um­ræðan um CO­VID muni eiga sviðið. „Það verður á­huga­vert að sjá hvort flokkunum takist að koma sínum málum á dag­skrá eða hvort þeir verði enda­laust að bregðast við kröfum eða um­ræðu um af­leiðingar CO­VID á efna­hags­kerfið, lýð­heilsu, Land­spítalann og allt þetta.“

Að­spurð út í haustið sem tíma undir kosningar, í stað vors eins og venjan hefur alla­jafna verið hér á landi bendir Eva á að það sé víða þekktur tími undir kosningar, líkt og í Noregi. „Þeir kjósa alltaf í septem­ber.“ Kostirnir við að kjósa um vor snúi helst að af­greiðslu fjár­laga.

Fram­boðs­frestur ekki liðinn

Dóms­mála­ráðu­neytið vakti at­hygli á því fyrir helgi að fram­boðs­frestur til Al­þingis er ekki liðinn, þrátt fyrir að utan­kjör­fundar­at­kvæða­greiðsla sé hafin. Fram­boðs­frestur er til 12 á há­degi föstu­daginn 10. septem­ber.

Utan­kjör­fundar­at­kvæða­greiðsla hófst í Kringlunni og í Smára­lind í dag. Í aug­lýsingu dóms­mála­ráðu­neytisins vegna utan­kjör­fundar­at­kvæða­greiðslunnar var birtur listi yfir lista­bók­stafi stjórn­mála­sam­taka sem buðu fram í síðustu kosningum, 2017 sem og Sósíal­ista­flokksins, Frelsis­flokksins og Frjáls­lynda­lýð­ræðis­flokksins.

Barst um­boðs­manni al­þingis kvörtun vegna aug­lýsingarinnar, frá Gunnari Smára Egils­syni, for­manni fram­kvæmda­stjórnar Sósíal­ista­flokksins og fram­bjóðanda, vegna að­greiningarinnar. Sagði Sig­ríður Kristins­dóttir, sýslu­maður á höfuð­borgar­svæðinu, aug­lýsinguna í sam­ræmi við kosninga­lög og sagðist hún ekki sam­mála því að með henni væri verið að setja Sósíal­ista í síðri flokk.

Skjáskot/Stjórnartíðindi