Eva Heiða Önnudóttir, stjórnmálafræðingur, segir of snemmt að segja til um það á þessari stundu að hafa áhyggjur af dræmri kosningaþátttöku í Alþingiskosningum í haust. Kosningabaráttan muni líklega hefjast af fullum krafti um mánaðarmót.
Fréttablaðið heyrði í Evu í tilefni þess að fimm vikur eru til kosninga. Eitthvað hefur verið rætt um þreytu meðal landsmanna á tímum heimsfaraldurs og litla stemningu svo skömmu fyrir kosningar. Þær fara fram eftir rúmar fimm vikur, þann 25. september.
Eva segir aðspurð út í stemninguna of snemmt að örvænta. Sé tekið mið af kosningum síðustu ára hafi kosningabaráttan staðið fremur stutt yfir. „Og svona fjórum vikum fyrir kosningar fer þetta í gang. Í ljósi þeirrar sögu hef ég ekki áhyggjur,“ segir hún. Kosningaþátttaka hefur verið í kringum 80 prósent í síðustu Alþingiskosningum.
Eva segist hafa kíkt snögglega á heimasíður flokkanna fyrir viðtal. „Og þeir eru flestir sýnist mér að leggja lokahönd á kosningastefnuskrár, landsþing og svo framvegis.“
Hún segir að sig gruni að umræðan um COVID muni eiga sviðið. „Það verður áhugavert að sjá hvort flokkunum takist að koma sínum málum á dagskrá eða hvort þeir verði endalaust að bregðast við kröfum eða umræðu um afleiðingar COVID á efnahagskerfið, lýðheilsu, Landspítalann og allt þetta.“
Aðspurð út í haustið sem tíma undir kosningar, í stað vors eins og venjan hefur allajafna verið hér á landi bendir Eva á að það sé víða þekktur tími undir kosningar, líkt og í Noregi. „Þeir kjósa alltaf í september.“ Kostirnir við að kjósa um vor snúi helst að afgreiðslu fjárlaga.
Framboðsfrestur ekki liðinn
Dómsmálaráðuneytið vakti athygli á því fyrir helgi að framboðsfrestur til Alþingis er ekki liðinn, þrátt fyrir að utankjörfundaratkvæðagreiðsla sé hafin. Framboðsfrestur er til 12 á hádegi föstudaginn 10. september.
Utankjörfundaratkvæðagreiðsla hófst í Kringlunni og í Smáralind í dag. Í auglýsingu dómsmálaráðuneytisins vegna utankjörfundaratkvæðagreiðslunnar var birtur listi yfir listabókstafi stjórnmálasamtaka sem buðu fram í síðustu kosningum, 2017 sem og Sósíalistaflokksins, Frelsisflokksins og Frjálslyndalýðræðisflokksins.
Barst umboðsmanni alþingis kvörtun vegna auglýsingarinnar, frá Gunnari Smára Egilssyni, formanni framkvæmdastjórnar Sósíalistaflokksins og frambjóðanda, vegna aðgreiningarinnar. Sagði Sigríður Kristinsdóttir, sýslumaður á höfuðborgarsvæðinu, auglýsinguna í samræmi við kosningalög og sagðist hún ekki sammála því að með henni væri verið að setja Sósíalista í síðri flokk.
