Nemendur grunnskóla við lok 10. bekkjar eiga að geta sýnt leikni og synt viðstöðulaust í bringusundi, baksundi, skriðsundi, flugsundi og kafsundi auk þess að geta troðið marvaða. Þetta eru viðmið aðalnámskrár og þykja um margt tímaskekkja.

Umboðsmaður barna, Salvör Nordal, hvetur nú mennta- og menningarmálaráðherra til að taka til skoðunar fyrirkomulag sundkennslu í grunnskólum.

„Ljóst er að þær kröfur sem gerðar eru til nemenda grunnskóla um sundfærni, eru þannig langt umfram það sem nauðsynlegt má telja, til þess að nemandi geti eftir útskrift úr grunnskóla, átt þess kost að stunda sund sem líkamsrækt á öruggan hátt,“ segir í bréfi umboðsmanns. Nemendur í eldri bekkjum grunnskóla, og þá sérstaklega hinsegin börn, lýsa einnig upplifun af einelti og áreitni í sundkennslu.

Í samtölum umboðsmanns við unglinga víða um land hafi komið fram hugmyndir þeirra um að sundkennslan verði gerð valkvæð að loknu stöðuprófi.

„Ég sjálf þekki ekki neinn sem hefur lært flugsund og getur bara synt það viðstöðulaust“

„Frumkvæði að þessari umræðu kemur fyrst og fremst frá börnunum sjálfum,“ segir Salvör og það séu helst eldri börnin sem kvarti undan sundkennsluskyldunni. Hún tekur að sumu leyti undir með börnunum varðandi kröfur um sundfærni. „Ég sjálf þekki ekki neinn sem hefur lært flugsund og getur bara synt það viðstöðulaust,“ segir hún en ekki síst séu félagslegir þættir mikilvægir: „Þetta er auðvitað viðkvæmur staður,“ segir hún og meinar sundlaugarnar þar sem ungmenni finna sig sum berskjölduð.

Nemendur í efri bekkjum Víðistaðaskóla í Hafnarfirði vöktu í febrúar á þessu ári athygli á margvíslegu sem betur mætti fara í skólastarfi. Undir samtakaheitinu Menntakerfið okkar, sendur nemendurnir umsögn um tillögu menntamálaráðherra að Menntastefnu til ársins 2030. Þar mátti finna gagnrýni nemendanna sem sneri að úreltu skólakerfi s.s. vegna sundakennslu sem þau töldu tilgangslausa og til þess að valda andlegri vanlíðan sumra unglinga.

„Frumkvæði að þessari umræðu kemur fyrst og fremst frá börnunum sjálfum,“

Ráðherra er hvattur til að leita eftir skoðunum grunnskólanema á sundkennslunni. Vísað er í ákvæði samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins sem tryggð eru í íslenskum lögum.

Fréttablaðið/Stefán Karlsson