Björn Zoëga, nýr stjórnarformaður Landspítalans og forstjóri Karolinska-sjúkrahússins í Svíþjóð, segir að einfalda þurfi stjórnskipulag Landspítalans ásamt því að skoða hvernig spítalinn er fjármagnaður.

Hjá spítalanum starfi allt of margt fólk sem vinni ekki við það að þjónusta sjúklinga og að það gangi ekki upp, fjöldi þeirra hafi aukist meira en þeirra sem vinni við að þjónusta sjúklinga.

Rætt var við Björn í Morgunblaðinu en hann segir að meta þurfi starfsmannaþörf spítalans og einfalda reksturinn. Sem dæmi þurfi að skoða hvort millistjórnendur séu of margir.

Björn segir í viðtali við Morgunblaðið að ekki hafi náðst að þróa spítalann og rekstur hans nægilega vel og gera þurfi betur.

„Ég hef þó trú á því að það sé hægt að gera og í nýrri stjórn sit­ur öfl­ugt fólk sem get­ur aðstoðað nýj­an for­stjóra við að breyta því sem þarf að breyta,“ segir Björn.

Í grunninn snúist málið um að sjúkrahús fái greitt fyrir þá þjónustu sem þau veiti. „Þá greiðir ríkið fyrir ákveðna þjónustu og veit hvað það fær fyrir peninginn.“

Björn segir Ísland sennilega verða með síðustu þjóðunum í hinum vestræna heimi til að taka upp það fyrirkomulag í stað þess að vera með ríkjandi fyrirkomulag, það er sjúkrahúsið á föstum fjárlögum.