Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafði í mörg horn að líta í gærkvöldi og í nótt og komu þó nokkuð mörg fíkniefnamál á borð hennar. Alls voru fimm handteknir vegna fíkniefnamisferlis og þá voru nokkrir ökumenn teknir úr umferð vegna gruns um akstur undir áhrifum fíkniefna.
Á áttunda tímanum í gærkvöldi var tilkynnt um umferðarslys í hverfi 108, en þar hafði orðið árekstur á milli bifreiðar og vespu. Minniháttar meiðsl urðu á ökumanni og farþega vespunnar, að sögn lögreglu.
Rétt fyrir klukkan eitt í nótt var tilkynnt um bifreið sem lagt hafði verið uppi á gangstétt í miðborginni. Bifreiðin var dregin í burtu með kranabifreið. Þá stöðvaði lögregla bifreið í hverfi 108 á þriðja tímanum í nótt en of margir farþegar voru í bílnum og tvö börn sem voru ekki í belti.
Lögregla og slökkvilið voru svo kölluð að Hafravatni í gærkvöldi vegna stúlku sem hafði dottið af kajak í vatnið. Stúlkan var á námskeiði og hafði rekið frá hópnum vegna vinds og fallið svo útbyrðis.
Töluverður viðbúnaður var á vettvangi en svo heppilega vildi til að slökkviliðsmaður frá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins var á staðnum. Fékk hann flotgalla frá starfsmanni og synti út til stúlkunnar sem var komin nokkuð frá landi. Stúlkan var flutt á spítala til skoðunar en hún var orðin býsna köld þegar hún kom í land.