Í niðurstöðum rannsóknar sem Berglind Kristinsdóttir gerði um upplifun sjö starfandi náms- og starfsráðgjafa í grunnskólum kemur skýrt fram að viðmælendur töldu grunnskólann gera of litlar námslegar kröfur til nemenda.

Í rannsókninni, sem kallast Við tökum ábyrgðina af þeim, kemur fram að allir viðmælendur töldu mikilvægt að efla sjálfsstjórn nemenda í námi og stuðla þannig að því að efla ábyrgð þeirra á eigin námi.

Námsráðgjafarnir voru á þeirri skoðun að þau börn sem sýna fram á góðan námsárangur væru nemendur sem skipuleggja tíma sinn, leita eftir aðstoð þegar þörf er á og hafi oftast mikið á sinni könnu. Það megi því draga þá ályktun að daglegt líf þeirra efli sjálfsstjórn þeirra í námi ásamt því að þau búi yfir þeim þroska að geta lagt mat á námsframvindu sína.