Utanríkisráðherra Bretlands, Jeremy Hunt, segir að það hafi verið of hættulegt að senda fólk á vegum breska ríkisins til Shamimu Begum í flóttamannabúðum í Sýrlandi og bjarga þriggja vikna gömlum syni hennar, sem lést á dögunum úr lungnabólgu. Þetta kemur fram í umfjöllun BBC. Bresk yfirvöld hafa verið harðlega gagnrýnd vegna málsins. 

Líkt og Fréttablaðið hefur greint frá hefur mál hinnar nítján ára gömlu Shamimu vakið heimsathygli, en hún gekk til liðs við hryðjuverkasamtökin sem kenna sig við Íslamska ríkið árið 2015. Bretar sviptu hana ríkisborgararétti sínum nýverið vegna þessa en Shamima hefur ítrekað lýst því yfir að hana langi til Bretlands til að ala þar upp son sinn, sem nú er látinn.

Sonurinn, Jarrah, var hins vegar breskur ríkisborgari, að því er fram kemur í samtali ráðherrans við BBC. Hann segir hins vegar að hver sá sem hefði verið sendur til að bjarga syninum hefði verið í hættu. 

„Við þurfum að hugsa um öryggi breskra starfsmanna sem ég myndi senda á þetta stríðssvæði. Shamima vissi að þegar hún tók ákvörðun um að ganga til liðs við samtökin, að hún væri að fara til lands þar sem er ekkert sendiráð, enginn konsúll og ég er hræddur um að þessar ákvarðanir, eins hræðilegt og það er, hafi haft afleiðingar,“ segir Hunt meðal annars. 

Hann segir einnig að breska utanríkisráðuneytið vinni þrátt fyrir það að því að finna leiðir til þess að koma breskum börnum annarra kvenna sem gengu til liðs við samtökin í öruggt skjól. Vitað er um tvær aðrar konur, Reema Iqbalog systur hennar Zöru, sem bresk yfirvöld gerðu ríkisfangslausar á síðasta ári en þær eru nú báðar staddar í flóttamannabúðum ásamt ungum börnum sínum.