„Það er ótrú­legt hvað mikið þurfti að ganga á þangað til eitt­hvað gerðist. Dreng­ur­inn var orðinn gjör­sam­lega heilaþveg­inn af þess­um manni, orðinn háður dópi og tób­aki. Karl­inn kaup­ir handa hon­um enda­laust af tölvu­leikj­um og eins síma. Hann á dreng­inn í raun­inni á þess­um tíma.“

Þetta hefur mbl.is eftir móður drengsins sem lagði fram kæru á hendur Þorsteini Halldórssyni, tæplega sextugum karlmanni sem ákærður hefur verið fyrir alvarleg kynferðisbrot gegn ungum pilti. Honum er meðal annars gefið að sök að hafa haldið honum nauðugum dögum saman í síðasta mánuði. Meint brot hófust þegar pilturinn var 15 ára gamall.

Í viðtalinu er því lýst hvernig maðurinn á að hafa nýtt sér yfirburðastöðu sína gagnvart piltinum; tælt hann með fíkniefnum, lyfjum og gjöfum, gefið honum peninga og tælt hann til að hafa við sig samræði og önnur kynferðismök.

Foreldrar drengsins lýsa í viðtalinu úrræðaleysi sem þau upplifðu lengst af, þrátt fyrir að vera kunnugt um hvað gengi á. Í janúar 2017 sátu þau heima og horfðu á síma drengsins þar sem skilaboðunum frá Þorsteini mun hafa rignt inn. „Það endaði með því að ég hringdi í hann og öskraði á [hann] að hann ætti að láta dreng­inn í friði. En það hafði eng­in áhrif og þá feng­um við nálg­un­ar­bann á hann,“ er haft eftir föður drengs­ins.

Maðurinn er sagður hafa brotið ítrekað gegn nálgunarbanninu þá sex mánuði sem það gilti. Í viðtalinu er því lýst hvernig, snemma á þessu ári, drengurinn hafi látið sig hverfa af heimilinu. Fram kemur að Þorsteinn hafi komist í samband við drenginn og boðið honum töflur. Næstu dagar hafi verið í móðu hjá drengnum. Hann muni lítið eftir því sem fram hafi farið en muni þó eftir því að Þorsteinn hafi í tvígang haft samræði við hann, að minnsta kosti. Hann fyndi mikið til eftir það. Því er lýst að drengurinn hafi haft samband við móður sína í gegn um Snapchat og beðið hana um að hjálpa sér að flýja. Þau fundu hann svo grátandi úti á götu.

Þorsteinn mun vera grunaður um kynferðisbrot gegn fleiri piltum. Hann var handtekinn um miðjan janúar.