Umhverfis- og auðlindaráðherra hefur verið settur til að ákveða hvort hefja skuli frumkvæðisathugun á ákvörðun Hafnarfjarðarbæjar um framkvæmdir og kaup á mannvirkjum í Kaplakrika.

Þetta var samþykkt á fundi ríkisstjórnar í gær að tillögu forsætisráðherra.

Svandís Svavarsdóttir var í haust sett til að fjalla um stjórnsýslukærur í málinu sem vísað var til samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins vegna vanhæfis Sigurðar Inga Jóhannssonar en fyrrverandi aðstoðarmaður hans situr í bæjarstjórn Hafnarfjarðar. Í forsendum fyrir frávísun kæranna kemur fram það mat ráðherra rétt sé að hefja frumkvæðisathugun og lýsti hún einnig því viðhorfi í viðtölum við fjölmiðla í kjölfarið.

„Þótt það sé ekki mat ríkisstjórnarinnar að ummæli Svandísar geri hana vanhæfa er betra að hafa vaðið fyrir neðan sig,“ segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra um þá ákvörðun að fela málið öðrum ráðherra.

Uppbygging knatthúsa hefur verið mjög mikið hitamál í bæjarpólitíkinni í Hafnarfirði um nokkurra ára skeið en meirihlutinn ákvað í sumar að kaupa íþróttamannvirki af FH í Kaplakrika fyrir tæpar 800 milljónir til að gera íþróttafélaginu kleift að reisa knatthús, sem áður stóð til að bæjarfélagið reisti sjálft. Einnig er deilt um greiðslu á 100 milljónum frá bænum til íþróttafélagsins án þess að fyrir lægi samþykki fyrir slíkri greiðslu.

Ef niðurstaðan verður sú að hefja skuli frumkvæðisathugun er ómögulegt að vita í hvaða ráðuneyti sú athugun fer fram.