Um­hverfis­stofnun hefur nú birt birt niður­stöður tveggja rann­sókna á stöðu plast­mengunar í hafi í kringum Ís­land. Sam­kvæmt niður­stöðum rann­sóknarinnar fannst örplast bæði í ís­lenskum kræklingi og í mögum fýla.

Stofnunin gerði tvo rann­sóknar­samninga á síðasta ári, annars vegar við Rann­sókna­setur Há­skóla Ís­lands á Suður­nesjum sem skoðaði örplast í kræklingi á völdum stöðum við Ís­land og hins vegar við Náttúru­stofu Norð­austur­lands um rann­sókn á plasti í maga fýla.

Plastagnir aðallega þræðir í kræklingi

Örplast fannst í fjöru­kræklingi á öllum þeim stöðum sem voru kannaðir en sýna­tökur voru fram­kvæmdar á sex stöðum á sunnan og vestan­verðu landi. Það er við Ósa­botna, Hvassa­hraun, Geldinga­nes, Hval­fjörð, Bjarnar­höfn og Skötu­fjörð. Ekki reyndist mark­tækur munur á fjölda örplastagna í kræklingi á milli stöðva.

Fjöldi örplastagna var á bilinu 0 til 4 í hverjum kræklingi og fundust plastagnir í 40 til 55 prósent kræklings á hverri stöð. Alls fundust 77 örplastagnir í þeim 120 kræklingum sem voru skoðaðir í rann­sókninni. Meðal­fjöldi var 1,27 agna í hverjum kræklingi.

Plastagnirnar voru aðal­lega þræðir sem voru af ýmsum gerðum og litum

Plast fannst í um 70 prósent af þeim fýlum sem voru rannsakaðir.

Rann­sóknin fer yfir­leitt þannig fram í Evrópu að að­eins eru notaðir fuglar sem finnast dauðir í fjöru. Hér á landi er þó ekki mikið um fjöru­vaktanir og hreinsanir og því að­gengi að dauðum fuglum ekki það sama og annars staðar í Evrópu. Hér var því farin sú leið að safna fýlum sem höfðu fest í veiðar­færum og drepist við það. Haft var sam­band við sjó­menn á línu­bátum á Húsa­vík og á Bolungar­vík og þeir beðnir um að safna saman fýlum sem festust í veiðar­færum þeirra. Með hverjum fugli var skráð niður dag­setning og stað­setning. Fuglarnir voru svo geymdir í frysti uns krufning var fram­kvæmd.

Um 16 prósent fýlanna voru með meira en 0,1 gramm af plasti í maganum. Meðal­fjöldi agna í meltingar­vegi fuglanna var 3,65 og meðal­þyngd þeirra um 0,0486 grömm. Meðal­þyngd var að­eins þyngri í þeim fýlum sem voru á Norð­austur­landi. Þá var einnig mark­tækt meira af plasti í kven­fuglum, bæði hvað varðar fjölda og þyngd.

Fram kemur í til­kynningu frá stofnuninni að kræklingur hafi verið talinn hentugur fyrir mat á örplasts­mengun í hafi. Fýlar voru valdir því þeir er fyrir notaðir sem um­hverfis­vísar sam­kvæmt OSPAR-samningnum um verndun Norð­austur-At­lants­hafsins til að meta magn plasts í yfir­borði sjávar.

Í til­kynningunni segir að rann­sóknirnar, á­samt vöktun á rusli við strendur Ís­lands, gefi heild­ræna mynd af plast­mengun í kringum Ís­land

Lesa má nánar um rannsóknirnar í skýrslum á heimasíðu Umhverfisstofnunar hér og hér.