Haförninn sem Snorri Rafnsson, Vargurinn, fangaði á Snæfellsnesi þann 30. nóvember í fyrra er dauður. Frá þessu greinir Snorri á Snapchat. Kristinn Haukur Skarphéðinsson, fuglafræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands, staðfestir þetta í samtali við Fréttablaðið. Hann svæfði fuglinn skömmu fyrir mánaðamótin.

Kristinn segir að fuglinn hafi aldrei flogið eftir að hann kom í garðinn. Hann hafi í apríl verið orðinn mjög máttfarinn og ekki útlit fyrir að hann myndi braggast. „Ef það er ekki hægt að sleppa fuglum þá eru þeir svæfðir,“ segir hann. Nokkrar tilraunir hafi verið gerðar til að sleppa honum en undir það síðasta stóð hann varla í lappirnar.

Fuglinn verður krufinn síðar í sumar, eða í haust, og mögulega stoppaður upp. Engin ákvörðun hefur þó verið tekin um það. „Ernir eru settir upp nema fyrir opinber söfn. Hann verður settur í röntgen,“ segir Kristinn en ekki liggur fyrir hvað amaði að fuglinum. 

Hann segir hugsanlegt að örninn hafi orðið fyrir bíl en Snorri greindi frá frásögn af slíku atviki þegar hann fangaði hann í nóvember. Það er þó ekki staðfest.

„Ég skil þetta vel. Ég er ánægður með að hafa fengið að upplifa þetta með þessum haferni,“ segir Snorri á Snapchat nú í morgun. „Við vissum að hann ætti ekki mikinn séns.“