Stríðsglæpadómstóllinn í Haag mun eftir hádegi í dag kveða upp fullnaðardóm yfir Radovan Karadzic, fyrrverandi leiðtoga Bosníu-Serba. BBC greinir frá.

Karadzic, sem er 73 ára, áfrýjaði 40 ára fangelsisdómi, sem hann fékk fyrir að vera leiðtogi Serba í Bosníu í stríðinu á árunum 1992-1995. Ríflega hundrað þúsund manns féllu í átökunum.

Karadzic skipulagði meðal annars umsátrið um Sarajevo, þar sem tíu þúsund féllu, og fjöldamorðin á múslimum við Srebrenitsja. Hann hefur haldið því fram að hann hafi ekki fengið réttláta málsmeðferð og að pólitík hefði ráðið för við uppkvaðningu dómsins.