Sambýliskona manns sem slasaðist alvarlega í umferðarslysi á Reykjanesbraut segir stjórnvöld ættu heldur að einbeita sér að því að tvöfalda brautina, fremur en að reisa minnismerki um þá sem látist hafa í umferðarslysum. 

Alþjóðlegur minningardagur þeirra sem látist hafa í umferðinni var haldinn í sjöunda sinn í gær. Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitastjórnarráðherra, flutti þar ávarp og lagði til að reist yrði minnismerki um þá sem látist hafa í umferðinni.

Vill að stjórnvöld byrji á byrjuninni

Sambýlismaður Indu Hrannar Björnsdóttur, Óskar Aðils Kemp, stórslasaðist í umferðarslysi á Reykjanesbrautinni í apríl og hefur legið á spítala í sjö mánuði eftir slysið. Í samtali við Fréttablaðið segir Inda hugmyndina um minnisvarða fallega, en byrja ætti á byrjuninni með því að koma í veg fyrir að fleiri slys verði. 

„Við getum fækkað nöfnum á minnisvarðanum ef við tvöföldum vegina. Það er verið að tala um hluti eins og að byggja minnisvarða en hvenær ætlum við að tvöfalda þennan kafla? Það er hvert slysið á fætur öðru á svæðinu og kostnaðurinn í kringum þá slösuðu er gífurlegur,“ segir Inda.

Milljónir ferðamanna sem ekki 

Inda bendir á að hingað til lands komi milljónir ferðamanna á ári hverju sem ekki eru vanir að keyra á vegum eins og Reykjanesbraut. „Það eru alls staðar tvíbreiðir vegir erlendis og ferðamenn eru ekki vanir þessum vegum,“ segir Inda og bætir við að það hafi verið erlendur ferðamaður sem varð valdur af bílslysinu sem sambýlismaður hennar lenti í.

Sjá einnig: Hóta lok­un braut­ar­inn­ar: „Eina leið­in til að ráð­a­menn hlust­i“

Óskar, sambýlismaður Indu slasaðist sem fyrr segir í apríl, í þriggja bíla árekstri. Í bílnum voru einnig ungar dætur hjónanna. Að sögn Indu lá Óskar maður hennar á gjörgæslu í mánuð og hefur verið á spítala síðan. Segir hún kostnaðinn að öllum líkindum skipta milljónum og ekki ekki sé tekið með í reikninginn tekjumissir maka og annarra fjölskyldumeðlima. „Kostnaðurinn við hvern sjúkling sem örkumlast er gífurlegur. Maðurinn minn er rétt rúmlega fertugur og á eftir að vera í heilbrigðiskerfinu alla ævi.“

Sagðist ekki elta banaslys með fjármagni

Banaslys sem varð á Reykjanesbraut í lok október, á alræmdum kafla í Hafnarfirði, vakti hörð viðbrögð hörð viðbrögð hjá þeim sem barist hafa lengi fyrir því að lokið verði við tvöföldun brautarinnar. Hópurinn Stopp hingað og ekki lengra er meðal þeirra og eftir að banaslysið í lok október hótaði hópurinn að loka brautinni ef ekkert yrði aðhafst. 

Rætt var um brautina á þingi stuttu síðar þar sem Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra að hann gæti vel skilið óþolinmæði, ekki væri hægt að fullyrða hvar næsta hörmulega banaslys yrði. „Ég get vel skilið óþolinmæði allra. Því miður getum við ekki fullyrt hvar næsta hörmulega banaslys verður. Við verðum að vinna þetta heildstætt og ekki hlaupa til með tæki og fjármagn eftir því hvar slysin verða,“ sagði Sigurður Ingi. 

Núverandi samgönguáætlun gerir ráð fyrir að byrjað verði að tvöfalda brautina frá Krýsuvíkurafleggjara út í Hvassahraun eftir sex ár. Verkefninu verði síðan lokið 2033.