Skortur er á fræðslu um svefn meðal barna og ungmenna og hvaða afleiðingar það hefur að sofa ekki nægilega mikið. Börn og ungmenni þurfa að læra að þekkja eigin líkama og tilfinningar og átta sig á þeirri vanlíðan sem fylgir því að fá ekki fullnægjandi svefn. Guðrún Magnúsdóttir, hjúkrunar- og lýðheilsufræðingur, telur mikla þörf á að koma fræðslu um svefn á í skólum. Best sé að byrja þegar börnin eru ung að aldri.

„Það er mikið um orkudrykkja­neyslu meðal íslenskra ungmenna á sama tíma og skjánotkun er umfram skynsemismörk, en þá er oft talað um að tvær klukkustundir séu hámarkstíma fyrir framan skjáinn á dag. Auðvitað er mikilvægt að mæta einstaklingum á raunhæfum forsendum og vera styðjandi. En við þurfum að fræða ungmennin okkar um afleiðingar þess að fá ekki fullnægjandi svefn, þau brengla hormónabúskapinn og reyna svo að leiðrétta ástandið með skyndilausnum á borð við orkudrykki eða einföld kolvetni,“ segir Guðrún.

„Við þurfum að stuðla að því að ungmennin okkar upplifi og finni ávinning þess að fá fullnægjandi svefn svo þau fylgi því betur eftir. Með fræðslu í skóla sem og heima við eykur það líkur á því að börn og unglingar sofi betur. Þá þurfum við fullorðna fólkið líka að vera góðar fyrirmyndir og tryggja að við fáum fullnægjandi svefn einnig. Börn og ungmenni stunda íþróttir og hreyfingu í skólum og fræðast um næringu og slíkt en það þarf að koma fræðslu um svefn inn í námskrá.“

Guðrún segir fræðslu varðandi heilbrigða lifnaðarhætti ekki síður mikilvægari en stærðfræði og lestur í skólum. „Að þekkja eigin líkama, vera í tengslum við sjálfan sig og þekkja sín mörk er grunnur þess að geta liðið vel og fúnkerað vel yfir daginn. Í raun ætti að leggja áherslu á aukið heilsulæsi almennt í samfélaginu.“

Rannsóknir hafa sýnt fram á að svefnskortur hjá ungmennum ýtir undir áhættuhegðun og það tengist skertri rökhugsun í framheilanum sem þroskast mikið á þessum árum, og að stórum hluta í svefni. Einnig hafa rannsóknir sýnt fram á lakari námsárangur og börn og ungmenni sem sofa ekki nóg eru mun líklegri til að vera í ofþyngd. Áhrifin geta því verið margvísleg.

Niðurstöður nýrrar rannsóknar um heilsu og lífskjör unglinga sem gerð er í 44 Evrópulöndum eru sláandi. Þar kemur fram að íslensk ungmenni nái mörg hver síður en svo fullnægjandi svefni.

- Tæplega helmingur unglinga á í vandræðum með svefn. 

- Rúmlega 40% nemenda í sjötta bekk finna fyrir svefnöruðugleikum oftar en vikulega og rúmlega 13% hverja nótt. 

- Um 34% áttundu bekkinga áttu erfitt með svefn oftar en vikulega og um 9% daglega. 

- 38% tíundubekkinga eiga erfitt með svefn einu sinni eða oftar í viku en rúmlega 11 prósent á hverri nóttu.

- Það virðist þó draga örlítið úr svefnörðugleikum eftir því sem börnin verða eldri. 


Umfjöllun um svefn og breytingu klukkunnar má finna í Tilverunni, nýjum fréttakafla í Fréttablaðinu.