Flóttamaður sem dvalið hefur undanfarið á Ásbrú í Reykjanesbæ reyndi í dag að svipta sig lífi í dag samkvæmt því sem má lesa á Facebook-síðu flóttafólks á Íslandi. Á síðunni, Refugees in Iceland, segir að lögreglan hafi komið í búðirnar eftir að tilkynnt var um tilraun hans og í stað þess að aðstoða hann, hafi lögreglan handtekið manninn. 

„Við þurfum hjálp,“ segir að lokum í færslunni. Með færslu þeirra fylgir myndskeið þar sem má sjá að maðurinn er leiddur í burtu í handjárnum. Um helgina var tilkynnt um annan mann sem reyndi að svipta sig lífi á Ásbrú. 

Lögreglan á Suðurnesjum vildi ekki tjá sig um atvikið við Ásbrú í dag þegar Fréttablaðið leitaði til þeirra eftir svörum. 

Sjá einnig: Sökkva dýpra í depurð ef ekki er gripið inn í

Samtökin Ekki fleiri brottvísanir deila færslu þeirra og segja að maðurinn hafi verið leiddur burt í handjárnum, bæði blóðugur og buxnalaus. Ekkert hefur heyrst frá honum síðan hann var handtekinn fyrr í dag. 

„Ég reyndi að hringja í hann, en það er slökkt á símanum hans,“ segir Elínborg Harpa Önundardóttir, vinkona mannsins og ein meðlima samtakanna Ekki fleiri brottvísanir, í samtali við Fréttablaðið í dag. 

Hún segir að henni sé  vel brugðið og um sé að ræða góðan vin hennar. Hún segir að það hafi verið þungt yfir honum síðast þegar þau hittust, nú síðasta laugardag. 

Hún segir að hún hafi rætt við nokkra sem búa á Ásbrú og þau hafi tjáð henni að mikill viðbúnaður hafi verið á Ásbrú vegna atviksins. Um fimm eða fjórir lögreglubílar hafi verið á vettvangi og lögreglumenn hafi skipað íbúum að fara inn í herbergi og að taka ekkert upp á síma sína.

Mótmæla í þriðja sinn á morgun

Flóttafólkið sem býr á Ásbrú mun á morgun mótmæla aðbúnaði sínum í þriðja sinn. Elínborg segir að þau muni á morgun halda áfram að reyna að koma áleiðis kröfum sínum sem lagðar voru fram á fyrstu mótmælum þeirra þann 13. febrúar. 

Elínborg segir að, eins og áður, verði lögð áhersla á að flóttamannabúðunum á Ásbrú verði lokað og að bætt verði aðgengi flóttafólks að heilbrigðiskerfinu.

„Það á einstaklega vel við núna,“ segir  Elínborg.

Kröfur flóttafólksins eru alls fimm. Þær eru að öllum brottvísunum verði hætt samstundis, að hælisleitendum verði tryggður réttur til að vinna á meðan þau eru á landinu, að þeim verði tryggt öruggt húsnæði, jafn réttur til heilbrigðisþjónustu og að Ásbrú, þar sem mörg þeirra búa á meðan þau bíða úrlausnar mála sinna, verði lokað að þeim í stað þess tryggð búseta á höfuðborgarsvæðinu.  

Sjá einnig: „Þetta er ekkert líf“ og Flótta­­fólk mót­­mælir: „Líf okkar eru í húfi“

Hún segir að flóttafólkið hafi í samráði við Rauða kross Íslands sent bréf á þrjú ráðuneyti og til útlendingastofnunar til að ræða kröfur sínar og stöðu þeirra hér á landi. Bréfin hafi verið send fyrir um viku síðan og að þeim hafi enn engin svör borist.

Mótmælin á morgun fara fram við Útlendingastofnun í Hafnarfirði. 

Nánar um viðburðinn má sjá hér.