Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, þingkona Samfylkingarinnar, segir að það sé afhjúpandi um viðhorf og hugsunarhátt þeirra sem þannig tala, þau niðrandi ummæli sem þingmenn Miðflokksins og fyrrverandi þingmenn Flokk fólksins höfðu um hana og fleiri í síðustu viku. Hún segir ömurlegt að horfa upp á tilraunir til þess að réttlæta samtölin með því að um sé að ræða einhverskonar venju. Þetta kemur fram í Facebook færslu sem Albertína birti nú fyrir skemmstu, sem sjá má hér að neðan. 

Líkt og greint hefur verið frá hæddust þingmennirnir Gunnar Bragi Sveinsson og Bergþór Ólason að Albertínu og sögðu hana „hafa gengið mjög hart á þá með kynlíf.“

„Ég hef sjálf aldrei nokkurn tíma orðið vitni að öðru eins samtali hvorki innan né utan stjórnmálanna og er ömurlegt að horfa upp á tilraunir þeirra til réttlætingar á samtali sínu með því að reyna að segja þetta einhverja venju, sem þetta er alls ekki og verða þau að bera ábyrgð á þessari framkomu sinni sjálf.“

Þá segist Albertína vera þakklát fyrir skilaboðin sem hún hafi fengið og stuðninginn sem hún hafi fengið úr öllum áttum. „Sérstaklega langar mig líka að þakka því fólki sem lætur sig þetta varða og neitar að sætta sig við svona framkomu hjá kjörnum fulltrúum.“

Fjölmennt var á mótmælum á Austurvelli í dag vegna hátternis þingmannanna og þá hafa tveir af þingmönnum Flokk fólksins tilkynnt að þeir ætli sér að halda áfram setu á Alþingi.